Flutningaskip á leið til Sandgerðis brennur
	Flutningaskipið Fernanda sem nú brennur sunnan við Vestmannaeyjar var á leið til Sandgerðis þar sem það átti að sækja frystar afurðir hjá fóðurframleiðandanum Skinnfiski
	
	Þyrlan TF-GNA hefur nú bjargað áhöfn skipsins, 11 manns, og eru allir heilir á húfi. Þyrlan flytur fólkið til Reykjavíkur. Brú skipsins var orðin alelda og skipverjar komnir út á þilfar er þyrlan kom að.
	
	Varðskipið Þór er á leiðinni á staðinn og mun freista þess að slökkva eldinn, segir í tilkynningu Landhelgisgæslunnar.
	
	Flutningaskipið Fernanda strandaði við innsiglinguna í Sandgerðishöfn 5. maí árið 2012. Skipið mun hafa komið of hratt í innsiglinguna og því strandað. Skemmdir voru litlar og losnaði skipið af sjálfsdáðum af strandstað.
	
	
	
	
	


 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				