Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Þriðjudagur 16. janúar 2001 kl. 12:03

Flugvirkjum fækkað

Fundur var haldinn með flugvirkjum og starfsfólki í viðhaldsstöð Flugleiða í morgun. Eins og staðan er nú telur félagið horfur á að fækka þurfi um 48 stöðugildi í viðhaldsstöðinni, en nú starfa þar um 220 manns. Vísir.is greinir frá.Af þessum 48 eru 38 flugvirkjar og tíu almennir starfsmenn.

Meginástæðan fyrir því að grípa þarf til þessara aðgerða er sú að stöðinni hefur ekki tekist að tryggja erlend viðhaldsverkefni eins og ráð hafði verið fyrir gert en um fimmtungur starfseminnar er byggður á slíkum verkefnum. Að óbreyttu myndi eigin viðhaldskostnaður Flugleiða því hækka verulega.

Talsmenn Flugleiða segja samdrátt í starfseminni neyðarúrræði og segjast harma ef grípa þarf til jafn margra uppsagna og horfur eru nú á. Miðað við rekstrarstöðu í alþjóðaflugi og stöðuna á alþjóðlegum
viðhaldsmarkaði telur félagið hins vegar ekki aðra kosti mögulega.

Komi til uppsagna verður farið eftir starfsaldri hvað flugvirkja varðar í samræmi við kjarasamning. "Þetta eru góðir fagmenn og vinnufélagar sem hafa menntað sig til þessara starfa og er af þeim mikil eftirsjá", sagði
Sigurður Helgason, forstjóri félagsins í dag. "Flugleiðir munu kappkosta að aðstoða þá í atvinnuleit hér heima og erlendis. Við kynntum stöðu mála fyrir trúnaðarmönnum í viðhaldsstöðinni í gær og þar kom fram vilji hvorra tveggja að sameina kraftana til að draga sem verða má úr áfallinu sem þessu óhjákvæmilega fylgir."

Valdimar Sæmundsson, rekstrarstjóri viðhaldsstöðvarinnar, segir að við gerð tillagna um endurskipulagningu starfseminnar í stöðinni hafi það verið haft að meginmarkmiði að halda viðhaldi og stórskoðunum á
flugflota Flugleiða áfram hér innanlands. Miklar breytingar hafa orðið á alþjóðlegu samkeppnisumhverfi stöðvarinnar síðustu 2-3 ár. Á markaðnum hafa sprottið upp risastór sjálfstæð viðhaldsfyrirtæki sem keppa við Flugleiðir um verkefni. Þessar stöðvar hafa einnig sóst eftir að taka að sér viðhald og stórskoðanir á flota Flugleiða. Við endurskipulagningu starfseminnar í viðhaldsstöðinni telur félagið mikilvægt að sýna framá að stöðin sé samkeppnisfær um eigið viðhald Flugleiða á alþjóðamarkaðnum. "Flugleiðir leggja kapp á að halda umsvifamiklum viðhaldsrekstri hér innanlands", sagði Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða. "Þannig teljum við okkur hafa betri tök á flugrekstrinum."

Flugleiðir opnuðu viðhaldsstöðina á Keflavíkurflugvelli árið 1993. Meginverkefni stöðvarinnar hefur alltaf verið viðhald eigin flugflota. Félagið hefur hins vegar sótt inná erlendan viðhaldsmarkað til að styrkja
starfsemina og á undanförnum árum hafa Flugleiðir samið við ýmis erlend flugfélög um viðhaldsverkefni og hafa flugvirkjar Flugleiða sinnt þessu í Keflavík. Vegna breyttra ytri aðstæðna hefur þrengt að á markaðnum undanfarin tvö ár og nú eru engin verkefni fyrirliggjandi á árinu 2001. Ástæðan er stóraukin samkeppni um viðhaldsverkefni, kostnaðarhækkanir hér innanlands og fjarlægð frá markaði. Valdimar Sæmundsson, rekstrarstjóri viðhaldsstöðvarinnar, segir að félagið sé reiðubúið að sækja aftur inná þennan markað ef tækifæri gefast en að óbreyttu virðist ekki um annað að ræða er rifa seglin.

Miklar kostnaðarhækkanir í flugrekstri undanfarin misseri leiða til þess að Flugleiðir hafa verið að gera breytingar á flugáætlun sinni. Meðal annars hefur verið dregið úr vetrarflugi um 10-15%. Flugvélarnar eru því
tiltækar til viðhalds á lengra tímabili yfir veturinn. Þetta á sinn þátt í að tryggja hagkvæmni þess að hafa stórskoðanir eigin flota áfram hér innanlands. Félagið hefur einnig skipulagt sumaráætlun sína þannig að unnt er að sinna reglubundnum skoðunum á sumrin í dagvinnu í stað næturvinnu áður, sem gerir það hagkvæmt að sinna þeim þætti hér á landi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024