Flugvélin hringsólaaði í tvo tíma til að losa eldsneyti
Icelandir flugvélin sem lenti í vandræðum í kvöld með hjólabúnaðinn og þurfti að lenda aftur í Keflavík eftir að hafa verið á leið til Orlando þurfti að losa sig við mikið eldsneyti fyrir lendingu. Á skjámynd af flugferli vélarinnar sést að hún fór um tíu hringi fyrir utan Reykjanesskagann áður en hún lenti heilu og höldnu á tíunda tímanum í kvöld. Þá var hún búin að hringsóla fyrir utan í um tvær klukkustundir.
Þær upplýsingar bárust fréttamönnum á vettvangi að til stæði að senda F-15 orustuþotur til að skoða nánar hjólabúnað vélarinnar en af því varð ekki. Vélin lenti tveimur tímum síðar en fyrst var áætlað og gekk lendingin að óskum en Almannavarnir sendu út tilkynningu um kl. 21 þess efnis að allt virtist í lagi með lendingarbúnað. Í viðtali á Rúv í kvöld kom fram hjá einn konu sem var farþegi í fluginu að dóttir hennar hefði sagst hafa séð dekk fara undan vélinni í flugtaki.
Gunnar Stefánsson hjá Landsbjörgu sagði að farþegar hefðu verið rólegir og mjög fáir í uppnámi vegna þessarar uppákomu. Sama sagði Guðmundur Ingólfsson hjá Rauða kross deild Suðurnesja sem stýrði áfallahjálp eftir lendingu í kvöld. Ítarlegri viðtöl við þá Gunnar og Guðmund sem báðir eru Njarðvíkingar birtist hér á vf.is innan skamms.
Við birtum einnig viðtal við unga konu sem var eini farþeginn sem fjölmiðlar á vettvangi náðu tali af og sagði hún að allir hefðu verið rólegir. „Ég var bara að horfa á bíómynd í vélinni,“ sagði hún.
Á skjámyndinni má sjá gula hringi sem sýna hringsól Icelandair vélarinnar í kvöld. Að neðan er mynd af vélinni þegar hún lenti heilu og höldnu.