Flugvél feykti gámi á dráttartæki
Verr hefði getað farið en raun varð á þegar flugvél tók af stað úr stæði á Keflavíkurflugvelli með þeim afleiðingum að gámur sem stóð nærri henni tókst á loft og hafnaði á dráttartæki.
Atvikið, sem átti sér stað í gærdag, varð með þeim hætti að flugvélinni átti að ýta úr stæði áður en hreyflar yrðu ræstir. Þess í stað fór vélin af stað undir eigin afli og var henni beygt til hægri með þeim afleiðingum að hreyflar hennar feyktu gáminum á vinnutækið. Hann hafði staðið milli umræddrar vélar og fraktvélar áður en hann tókst á loft. Má leiða líkur að því að hefði vinnutækið ekki verið staðsett milli vélanna hefði gámurinn hafnað á síðarnefndu vélinni.
Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar málið.