Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Flugvallarstjóri með fyrirlestur á alþjóðaráðstefnu í Singapore
Fimmtudagur 15. mars 2007 kl. 13:52

Flugvallarstjóri með fyrirlestur á alþjóðaráðstefnu í Singapore

Björn Ingi Knútsson flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli mun halda fyrirlestur á árlegri alþjóðaráðstefnu um slitlagstækni á flugvöllum – Innovative Pavement Management Systems 2007 – sem haldin verður í Singapore í lok þessa mánaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli.

ÞAr segir aukinheldur að ráðstefna þessi sé vettvangur fremstu sérfræðinga í lagningu bundins slitlags á flugvöllum og stjórnenda og tæknimanna frá helstu flugvöllum heims. Fjallar Björn um árangur af fræsingu vatnsrása í slitlag flugbrauta á Keflavíkurflugvelli sem valdið hefur byltingu í þurrkunartíma og hálkuvörn á flugbrautum.

Hálkuvarnir eru mikilvægur öryggisþáttur í flugvallarrekstri svo bestu möguleg hemlunarskilyrði flugvéla verði ávallt tryggð jafnt að sumri sem vetri. Árangur ræðst einkum af þurrkeiginleikum yfirborðsins, svo sem gerð og vatnshalla, og fyrirbyggjandi aðgerðum á borð við sópun og notkun dýrra afísingarefna. Rásir í yfirborði flýta frárennsli vatns og hindra myndun polla sem aftur krefst minni notkunar á vélsópum með tilheyrandi sliti og fyrirhöfn.

Fræsing í slitlag er þekkt aðferð á hraðabrautum erlendis en hefur minna verið beitt á flugvöllum þar til á allra síðustu árum. Fræsing flugbrauta á Keflavíkurflugvelli hófst árið 2003 og er stefnt að því að ljúka verkinu að fullu á þessu ári. Fræstar eru 6 mm breiðar og 6 mm djúpar rásir með 32 mm millibili í malbikslögnina og er árangurinn sláandi, einkum í votviðri þar sem hættan á fleytiáhrifum vegna pollamyndunar er úr sögunni. Þá batna hemlunarskilyrði verulega við aðrar aðstæður eða um 30-40 prósent í slyddu og ísingu með álíka miklum sparnaði afísingarefna.

Myndir: 1: Björn Ingi Knútsson, VF-mynd/elg, 2: Vatnsrásir fræstar í flugbraut á Keflavíkurflugvelli 3: Munurinn er augljós á blautu yfirborði fyrir og eftir fræsingu flugbrautar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024