Flugvallarslökkvibíll kostar 65 milljónir króna stykkið - Keflavíkurflugvöllur þarf þrjá
Alþjóðaflugvöllur eins og Keflavíkurflugvöllur gerir kröfur um a.m.k. þrjár svokallaðar flugvallarslökkvibifreiðar. Algengir evrópskir flugvallarslökkvibílar kosta um 65 milljónir króna stykkið. Þrír bílar kosta því um 200 milljónir króna. Íslensk stjórnvöld hafa, samkvæmt heimildum Víkurfrétta, um eitt ár til að kaupa nýja slökkvibíla fyrir Keflavíkurflugvöll. Menn verða að hafa hraðar hendur, því afgreiðslufrestur fyrir nýja bíla er 12 mánuðir eða eitt ár.
Þeir slökkvibílar sem eru nú staðsettir á Keflavíkurflugvelli og eru í eigu Bandaríkjahers eru allir komnir til ára sinna. Bílarnir eru bandarískir og heita OSHKOSH TA3000 og voru smíðaðir árið 1992 og eru því 14 ára gamlir.
Bandarísku slökkvibílarnir eru ódýrari en þeir evrópsku en nýr OSHKOSH bíll kostar 35-40 milljónir króna. Þeir eru einfaldari í búnaði en þeir evrópsku.
Auk svokallaðra flugvallarslökkvibíla þarf slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli að hafa yfir að ráða a.m.k. einum húsbrunaslökkvibíl en algengt verð á húsbrunaslökkvibílum er í dag um 20 milljónir króna. Þá er ótalinn allur annar búnaður slökkviliðsins er flugvallarslökkvilið þarf að búa yfir miklu af björgunarbúnaði ýmiskonar.
Samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta eru kröfur fyrir Keflavíkurflugvöll þær að tækjabúnaður slökkviliðs þarf að koma 50% af tiltæku slökkviefni á brautarenda á tveimur mínútum frá útkalli. Þrír 12.000 lítra slökkvibílar myndu ráða við það verkefni.
Bílafloti slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli í dag er mun stærri en það sem talið er upp hér að framan. Flugvallarslökkviliðið er með fjóra OSHKOSH TA3000 bíla sem eru smíðaðir árið 1992. Þá hafa þeir einn enn stærri bíl, OSHKOSH P15 sem er smíðaður 1982 og því 24 ára gamall. Þá hefur liðið yfir að ráða nokkrum húsbrunaslökkvibílum, stiga- og tækjabíl, svo eitthvað sé nefnt. Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli er einnig mjög vel búið til að taka á eiturefnaslysum og með bíl og búnað til þeirra mála.
Þá er ótalin björgunarsveit Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli, Orion, sem hefur yfir að ráða tveimur snjóbílum og ýmsum öðrum björgunartækjum.
Að framan hefur eingöngu verið rætt um slökkviliðið. Samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta munu Bandaríkjamenn einnig halda af landi brott með allan búnað til snjóruðnings og brautarhreinsunar, plóga og kústa. Það eru jafnframt sérhæfð tæki sem munu kosta tugi milljóna. Ekki náðist í aðila í dag sem gátu gefið upp hugsanlegt verðmæti slíkra tækja, en umboðsaðilar fyrir snjóplóga og sópa hafa boðið slík tæki á rekstrarleigu.
Texti: Hilmar Bragi Bárðarson [email protected]
Efri mynd: OSHKOSH TA3000 flugvallaslökkvibifreið. Þessi bíll var smíðaður 1992 en sambærilegur nýr bíll frá Bandaríkjunum kostar 35-40 milljónir. Evrópskur bíll kostar um 65 milljónir króna.
Neðri mynd: Eiturefnabíll slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli. Verður það hlutverk Keflavíkurflugvallar að sinna eiturefnamálum eða lendir málið á könnu sveitarfélaganna?
Myndir: Hilmar Bragi og Páll Ketilsson