Flugstöðin lýst bleik í október
Í októbermánuði verður að venju vakin athygli á krabbameini hjá konum hér á landi. Þetta er hluti af árlegu alþjóðlegu árvekniátaki en bleikur litur og Bleika slaufan eru tákn verkefnisins. Af þessu tilefni stendur Krabbameinsfélag Suðurnesja fyrir því að í október verða nokkur falleg og áberandi mannvirki á svæðinu lýst upp með bleiku ljósi.
Í ár bætist Flugstöl Leifs Eiríkssonar í hóp þeirra sem leggja átakinu lið og verður Flugstöðin, hliðið inn í og út úr landinu, og Þotuhreiðrið, listaverkið sem þar er, lýst bleik. Má segja að Flugstöð Leifs Eiríkssonar gefi átakinu alþjóðlega skírskotun og verða erlendir gestir okkar jafnt sem heimamenn minntir á málefnið með þessu móti. Auk flugstöðvarinnar verður nafn Reykjanesbæjar, við innkomuna í bæinn, sjúkrahúsið og jafnvel fleiri byggingar lýstar bleikar af þessu tilefni.