Flugstöð Leifs Eiríkssonar er 30 ára í dag
- Þrjú þúsund gestir viðstaddir vígsluna 14. apríl 1987. Farþegarfjöldi margfaldast á 30 árum.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar er 30 ára í dag, 14. apríl en hún var formlega vígð þann dag árið 1987 af forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur. Þrjú þúsund gestir voru viðstaddir vígsluna, fleiri en íbúar nágranna sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðis, samanlagt.
„Með tilkomu nýju flugstöðvarinnar er nú í fyrsta sinn búið að aðskilja farþegaflug frá herflugi á Keflavíkurflugvelli og því þurfa farþegar um flugstöðina ekki lengur að fara um hlið Keflavíkurflugvallar. Stöð þessi er talin mjög fullkomin, jafnvel sú tæknivæddasta,“ segir í frétt á baksíðu Víkurfrétta, daginn eftir vísluna, 15. apríl.
Kostnaður við bygginguna var við vígsluna komin í 1,5 milljarð króna og fyrirséð að hann færi í 2 milljarða. Á stöðinni var mjög gott handbragð íslenskra iðnaðarmanna, þeim til mikils sóma, segir jafnfram í fréttinni.
Í frétt á Víkurfréttavefnum tuttugu árum síðar segir: Gríðarleg framþróun hefur orðið á rekstri og umfangi stöðvarinnar á þessum tveimur áratugum. Árið 1983 þegar fyrsta skóflustungan var tekin að henni fóru 460 þúsund farþegar árlega um gömlu flugstöðina. Síðan þá hefur fjöldinn aukist í tvær milljónir og er gert ráð fyrir að farþegafjöldinn verði kominn í 3,2 milljónir árið 2015. Hann verður um þrefalt fleiri á þessu ári.
Margar spár hafa ekki staðist síðustu árin varðandi fjölgun farþega, á jákvæðan hátt ef svo má segja því fjölgunin hefur alltaf verið meiri. Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Flugststöðvar Leifs Eiríkssonar sagði við VF árið 2005 að flugstöðin væri næsta stóriðja Suðurnesja. Það er óhætt að segja að það hafi verið orð að sönnu.
Í spá fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir að nærri 9 milljónir farþega fari um flugvöllinn. Fyrstu 3 mánuði ársins var 50-70% farþegaaukning frá árinu 2016.
Forsíða og baksíða Víkurfrétta 15. apríl. Í forsíðufrétt fá forsvarsmenn stöðvarinnar orð í eyra fyrir að nota ekki heimamenn við vígsluna í veitingaþjónsutu eða skemmtun. Iðnaðarmenn á Suðurnesjum voru hins vegar drjúgir í byggingaframkvæmdum.