Flugstöð Leif Eiríkssonar hf. kaupir Íslenskan markað
Samningar hafa tekist um að Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. (FLE) kaupi allt hlutafé í Íslenskum markaði hf. (ÍM) og taki við rekstri félagsins. Þetta gerir FLE kleift að vinna hratt að nauðsynlegum breytingum í flugstöðinni til að laga starfsemina að örri fjölgun farþega og bæta jafnframt þjónustu á brottfarasvæðinu.
Af hálfu FLE er gert ráð fyrir að starfsfólki ÍM verði boðin önnur störf í flugstöðinni og að ekki komi því til uppsagna vegna breytingar á eignarhaldi félagsins.
Hluthafar ÍM eru alls 41, flestir tengdir innlendum framleiðendum iðnaðarvara. Hópurinn keypti 52% hlut í ÍM af ríkinu (framkvæmdanefnd um einkavæðingu) í apríl 1998. Umsamið kaupverð fyrir félagið er 336 milljónir króna.
Miklar framkvæmdir verða í flugstöðinni næstu misserin. Innritunarsalur verður stækkaður og móttökusalur sömuleiðis, nýtt skrifstofurými verður útbúið á 3. hæð og verslunar- og þjónusturými á 2. hæð stækkað og endurskipulagt. Breytingarnar taka meðal annars til þess húsrýmis sem Íslenskur markaður hefur nú til umráða, segir í frétt frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Víkurfréttir greindu frá þessum viðskiptum á miðvikudaginn með þessari frétt: /vidskipti/default.aspx?path=/Controls/47.ascx&C=ConnectionString&Q=Vidskipti1&Groups=0&ID=16435&Prefix=