Flugslysaæfing á Keflavíkurflugvelli á laugardaginn
– Mjög umfangsmikil og ein stærsta hópslysaæfing sem haldin hefur verið á Íslandi
„Isavia vill benda íbúum Suðurnesja á að haldin verður flugslysaæfing á Keflavíkurflugvelli á laugardaginn 21. maí á milli 11-14. Æfingin er mjög umfangsmikil og munu um 450 manns taka þátt í henni. Kveiktir verða eldar, sjúkrabílar aka í neyðarakstri, björgunarsveitarbílar verða áberanda og svo framvegis. Íbúar á Suðurnesjum munu eflaust verða varir við æfinguna og því vildum við hjá Isavia benda á að allt verður þetta sem betur fer sviðsett“. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia til íbúa á Suðurnesjum.
Æfingin verður sem fyrr segir mjög umfangsmikil og ein stærsta hópslysaæfing sem haldin hefur verið á Íslandi. Margar starfseiningar koma að henni svo sem starfsmenn flugvallarins, lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningsaðilar, starfsmenn sjúkrahúsa, almannavarnir, björgunarsveitir, Rauði krossinn, prestar, rannsóknaraðilar auk fjölda annarra.
Flugslysaæfingar sem þessar eru haldnar á um fjögurra ára fresti á hverjum flugvelli á Íslandi þar sem starfrækt er áætlunarflug.