Flugrútan fær að leggja við flugstöðina
Útboðsmál í uppnámi
Fyrir ári síðan var ákveðið að loka fyrir bílaumferð við anddyri komusalar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Síðan hafa rútufarþegar frá Keflavíkurflugvelli þurft að ganga yfir bílastæðin, við komusal flugstöðvarinnar, til þess að komast í áætlunarbílana. Á sama tíma hefur rútustæði við enda flugstöðvarinnar staðið ónotað. Það er ætlað þeim aðila sem fær einkaleyfi á akstri milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins.
Útboð á sérleyfinu er hins vegar í uppnámi eftir að Samkeppniseftirlitið ályktaði að hagsmunir almennings af skilvirkri samkeppni í fólksflutningum séu fyrir borð bornir með einkaleyfinu og ferðaþjónustunni um leið bakað alvarlegt tjón, frá þessu er greint á vefsíðunni Túristi.is en þar segir ennfremur að opið verði fyrir umferð að bílastæðum uns niðurstaða fáist vegna útboðsins.
Fyrirtækin Allrahanda og Kynnisferðir bjóða einungis upp á áætlunarferðir milli höfuðborgarinnar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Nú hafa rútur þeirra fengið aðgang að væntanlegu einkastæði sérleyfishafans og mun sá háttur verða hafður á þar til að niðurstaða fæst í útboðsmálinu.
Þriðja fyrirtækið, Bílar og fólk, íhugar að hefja áætlunarferðir á þessari leið ef ekkert verður úr sérleyfishugmyndum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.