Flugmálastjórnir settar undir einn hatt
Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli verður lögð niður í núverandi mynd og starfsemi hennar flutt undir Flugmálastjórn Íslands. Þetta kom fram á NFS fyrir stundu.
Völlurinn hefur verið rekinn sem sjálfstætt flugstjórnarsvæði samkvæmt ákvæðum varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Það hefur sætt nokkurri gagnrýni Alþjóða flugmálastofnunarinnar sem hefur mælst til þess að Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli verði flutt undir Flugmálastjórn Íslands, en sú stofnun ber ábyrgð á flugöryggismálum gagnvart alþjóðastofnuninni.
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir að brotthvarf Bandaríkjahers hefði mikil áhrif á starfsemi Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli. Sturla segir að hagræða megi verulega með sameiningu flugmálastjórnanna tveggja. Hann segir það fyrst og fremst snúa að yfirstjórn og þurfi ekki að hafa áhrif á fólk sem vinnur þar við rekstur flugvallarins.
Af visir.is






