Flugleiðir kaupa þrjár Boeing 757 flugvélar
Flugleiðir hafa fest kaup á þremur Boeing 757 flugvélum sem smíðaðar voru 1994. Tvær þeirra hefur félagið verið með á leigu og notað í áætlunar- og leiguflugi Icelandair og Loftleiða. Þriðju vélina keypti félagið til þess að leigja áfram til breska flugfélagsins Brittannia en kaup vélanna þriggja eru fjármögnuð af Landsbanka Íslands.
Það verð sem Flugleiðir greiða fyrir þessar þrjár flugvélar er töluvert undir núverandi markaðsverði þeirra, sem er samtals um 54 milljónir dollara. Ætla má, samkvæmt heimasíðu Flugleiða, að ábati félagsins af þessum kaupum geti numið allt að 500 milljónum króna. Ástæður þessa hagstæða verðs er tímasetning kaupanna og það að félagið var reiðubúið að kaupa þær allar saman.
Þessir kaupsamningar eru þáttur í nýrri starfsemi Flugleiða, en fyrr í þessum mánuði tilkynnti félagið um stofnun fyrirtækis í samvinnu við Gunnar Björgvinsson og fleiri í Lichtenstein, sem keypti þrjár notaðar Boeing 737 flugvélar og leigði áfram til lettneska flugfélagsins Air Baltic.
Starfsemin er liður í því að nýta þá umtalsverðu þekkingu sem býr innan félagsins á flugvélaviðskiptum. Félagið hefur langa reynslu af kaupum, fjármögnun og endurfjármögnun flugvéla og hefur starfað með erlendum bankastofnunum og lögfræðifyrirtækjum og nýtir með þessari starfsemi verðmæt viðskiptasambönd á þessu sviði.
www.icelandair.is