Flugleiðavél snúið við eftir klukkustundar langt flug
 Um 7 klukkustunda seinkun varð á flugi Icelandair til Boston í gær. Seinkunin byrjaði með því að flugvélin var sein fyrir og hófst flugið því nærri klukkustund á eftir áætlun.
Um 7 klukkustunda seinkun varð á flugi Icelandair til Boston í gær. Seinkunin byrjaði með því að flugvélin var sein fyrir og hófst flugið því nærri klukkustund á eftir áætlun.Þegar vélin var komin rúmlega stundar flug áleiðis til Boston sýndu tæki vélarinnar að leki var í vökvakerfi við nefhjól og var því snúið við til Keflavíkurflugvallar. Eldsneyti var losað og lent um klukkan 9 í gærkvöld.
Eftir það þurftu farþegar að bíða eftir að önnur vél yrði tiltæk þar sem bilaða vélin var tekin inn í flugskýli til viðgerðar. Það var svo loks upp úr miðnætti að afleysingavél tók á loft og fólkið komst til Boston. Af þessu leiddi síðan að flugi til Glasgow í morgun seinkaði til hádegis þar sem Glasgow-vélin var sú sem fór til Boston um miðnættið. Ríkisútvarpið greindi frá.


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				