Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Flugið okkar bjargvættur
Laugardagur 28. apríl 2012 kl. 16:07

Flugið okkar bjargvættur


Kristján Gunnarsson hefur verið verkalýðsleiðtogi í Reykjanesbæ í tvo áratugi. Hann var að undirbúa sinn 20. aðalfund hjá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis [VSFK] þegar Víkurfréttir tóku hann tali á þriðjudagsmorgun. Verkalýðsfélagið fagnar stórum tímamótum í árslok þegar það verður 80 ára. Félagsmenn hafa þó kannski ekki ríka ástæðu til að fagna því atvinnuleysið hefur leikið félagsmenn grátt og um tíma var atvinnuleysið innan félagsins 23% en er komið niður í 11% um þessar mundir.

„Staðan í verkalýðsmálunum er samofin stöðunni í atvinnumálum svæðisins. Við höfum verið í gríðarlega miklu atvinnuleysi í langan tíma. Við höfum upplifað allar verstu hliðar atvinnuleysis í langan tíma og það er farið að fara mjög illa með okkur hér,“ segir Kristján Gunnarsson í samtali við Víkurfréttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Að vera atvinnulaus er ömurleg staða

„Að vera atvinnulaus er ömurleg staða fyrir þann sem í því lendir. Fólk er að upplifa atvinnuleysi, eignamissi og hjá sumum heimilum verður algjör upplausn. Það eru einnig mörg dæmi þess að báðar fyrirvinnur séu atvinnulausar. Við sjáum það að fleiri og fleiri eru að klára atvinnuleysisbótatímabilið og standa þá uppi með þá staðreynd að hafa verið of tekjuhá við það eitt að fá bara atvinnuleysisbætur og þurfa að vera án tekna um tíma til að fá fjárhagsaðstoð frá félagsþjónustu sveitarfélaga.
Það er ekki mikið svigrúm fyrir þetta fólk að standa skil á skuldum og skyldum og eiga vart ofan í sig eða á. Við sjáum mikinn fjölda hér á svæðinu sem hefur verið að missa húsnæði sitt og svo sjáum við á eftir fólki sem er að flýja land og er að leita að lífsbjörginni erlendis“.

- Hvernig er ástandið í þjóðfélaginu að koma við félagsmenn VSFK?

„Félagið hefur verið með stærsta hópinn á Suðurnesjum sem hefur verið án atvinnu. Við höfum séð atvinnuleysið fara upp undir 23% hjá félaginu en um þessar mundir sjáum við það minnka mikið og vera um 11%. Það hefur verið auglýst mikið af störfum hér nú á vordögum við afleysingar. Flugvöllurinn og flugið er að taka til sín nokkur hundruð störf í sumarafleysingar. Það hefur munað mest um það,“ segir Kristján.

Í dag eru 342 félagsmenn í VSFK án atvinnu og Kristján segir Suðurnes vera grátt leikin af atvinnuleysi og það kemur víða fram í minnkandi tekjum, minni viðskiptum og verkalýðsfélagið finnur verulega fyrir því þar sem atvinnuleysið kemur við sjóði félagsins. „Við höfum ekki botnlaust fé til að hallareka okkur á móti þessari stöðu,“ segir Kristján. Hann segir að VSFK hafi verið að ráðstafa meira fé úr sjúkrasjóði út af þessu ástandi á svæðinu en áður hefur verið gert. Þá segir hann félagið aldrei hafa sett eins mikla fjármuni í fjárhagsaðstoð eins og á síðasta ári til matarlítilla félaga sinna.

- Hvað hafið þið verið að gera fyrir félaga ykkar?

„Sá sem er atvinnulaus greiðir félagsgjald til okkar en þeir greiða ekki í neina aðra sjóði félagsins. Við höfum hins vegar ekki skert réttindi þessara félaga okkar. Þeir halda fullum réttindum í sjúkrasjóði, starfsmenntunarsjóði, orlofssjóði og þess háttar. Við höfum litið svo á að þegar félagar okkar eru atvinnulausir og þar með í vanda, þá hjólum við ekki í þá og skerðum réttindi þeirra. Þeir hinir sem hafa vinnu og eru að borga hafa í raun tekið þetta á sig. Við gerum þetta meðvitað og munum gera eitthvað áfram. Við verðum samt að fara gætilega því við höfum gengið mjög nærri okkur undanfarin ár“.


Miklir fjármunir í fjárhagsaðstoð

Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis hefur veitt talsverðum fjármunum í Velferðarsjóð Suðurnesja sem síðan hefur úthlutað til þeirra sem eru verst settir. Þá hefur félagið einnig verið með beina fjárhagsaðstoð við félaga sína og þá helst í desember og segir Kristján að fjárhæðirnar hafi aldrei verið eins háar og tvö síðustu ár og þær skipti milljónum króna. Bara á síðasta ári var upphæðin um 3 milljónir króna.

Kristján leggur áherslu á að unnið sé markvisst að því að koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju. Það sé forsenda þess að skapa ný störf.

„Við erum búin að sjá fullt af undirritunum, skóflustungum, borðaklippingum og allt mögulegt. Svo koma vonbrigðin á eftir. Öll þessi bið eftir því að álverið fari af stað og orkumálin öll. Það eru alltaf endalausar fréttir af frestunum og vonbrigðum. Nýjasta dæmið er kísilverksmiðjan í Helguvík. Þar hvarf erlendi samstarfsaðilinn á braut þegar rétti verðmiðinn var settur á verksmiðju í Kanada og skildi okkur eftir, eftir að hafa haldið fólki hér uppi á kjaftasnakki í marga mánuði. Nú erum við að frétta það að búið sé að undirrita samninga við nýja aðila. Hvort þetta sé ný hringekja að fara af stað, það veit ég ekki og eitt er víst að við bíðum með öll fagnaðarlæti. Við erum hætt að fagna mikið við þessa atburði. Við viljum sjá hlutina fara að gerast og fólkið að fá vinnuna. Við ætlum að fagna þegar það skilar sér. Þessi bið eftir atvinnutækifærum er farin að setja mark á þetta svæði“.


Flugið okkar bjargvættur

Kristján segir að það sé ágætis samvinna á Suðurnesjum um að þoka málum áfram og að sú vinna þurfi að standa fyrir utan alla pólitík. Hann segir að það megi ekki undir neinum kringumstæðum blanda pólitík í atvinnuuppbyggingu, þó svo það hafi verið gert fyrir kosningar. „Ég vara mjög við því að þvælast með pólitík inn í atvinnumál íbúanna“.

- Merkir þú það að ástandið sé að skána á svæðinu, burtséð frá sumarafleysingum?

„Flugtengd starfsemi hefur verið okkar bjargvættur. Þar starfa hundruðir manna. Þetta er okkar stóriðja sem malar gull á sinn hátt. Hún getur hins vegar ekki séð fyrir öllum og það þarf fleira að koma til. Sjávarútvegurinn hefur verið að gera það gott. Gengisaðstæður hafa hjálpað til þar. Ég sé hins vegar ekki mikla aukningu verða þar í atvinnu. Þar ríkir óvissa út af frumvarpi ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum. Við höfum varað við að menn gangi ekki of langt í þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru. Það má ekki brjóta eggin í körfunni. Ég held að menn séu að ganga alltof langt í fyrirhugaðri gjaldtöku af greininni og við höfum af þessu áhyggjur“.

Kristján talar einnig um að bygginga- og mannvirkjageirinn hafi næstum þurrkast út á Suðurnesjum og mörg ár séu í að hann nái sér á strik að nýju. Á Suðurnesjum hafi verið stórveldi í mannvirkjagerð þegar Íslenskir Aðalverktakar hafi verið með sína starfsemi á Keflavíkurflugvelli og fjölmörg önnur fyrirtæki með tugi starfsmanna í greininni. Nú séu í raun bara örfáir tugir starfa eftir í bygginga- og mannvirkjagerð á Suðurnesjum.


Bjartsýnni í dag

Kristján segist bjartsýnni í dag en fyrir nokkrum vikum. Það hafi fækkað á atvinnuleysisskránni hjá honum um 160 manns á síðustu tveimur mánuðum. Þar munar mestu um sumarráðningar. Mikil aukning í flugi til Keflavíkurflugvallar hafi einnig keðjuverkandi áhrif út í atvinnulífið og fjölgi störfum. Þannig hafi verið skotið á það að ein ný flugvél í áætlunarflugi til Keflavíkur skapi allt að 120 störf á ýmsum sviðum.


Breytt félagsstarf

Félagsstarfið hjá VSFK hefur breyst mikið á síðustu árum. Þegar Kristján varð fyrst formaður fyrir tveimur áratugum voru haldnir fjölmennir félagsfundir og verkalýðshreyfingin var stór hluti af tilverunni og afþreyingu fólks. Nú er félagið hins vegar orðin meiri þjónustustofnun. Þar nefnir Kristján t.a.m. Virk, sem er starfsendurhæfing og vinnur m.a. að því að fyrirbyggja að fólk fari í örorku eða inn á styrkjakerfið eftir að hafa verið langvarandi frá vinnumarkaði. Starfið hjá Virk gengur glimrandi vel að sögn Kristjáns og eru nú tvö stöðugildi í þessari starfsemi.

Ný starfsemi er að hefjast innan veggja VSFK í kjölfar þess að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins annars vegar og ríkisstjórn og Vinnumálastofnun hins vegar gerðu samning við aðila vinnumarkaðarins um að þeir taki að sér aukna þjónustu við atvinnulausa. VSFK er þessa dagana að ganga frá ráðningu í tvö störf sem kostuð verða af atvinnuleysistryggingasjóði til að taka sérstaklega utan um atvinnulausa félagsmenn VSFK á svæðinu. Þeir verða þjónustaðir sérstaklega og eru þessi tvö stöðugildi, sem ráðið er í til þriggja ára, aukning við það starf sem verið hefur. Um er að ræða tilraunaverkefni sem keyrt verður á Suðurnesjum, hjá VR í Reykjavík og hjá Afli á Austfjörðum. Starfsemin verður m.a. þannig að atvinnuráðgjafar munu fara út á meðal fyrirtækja og bjóða fólk til starfa í stað þess að fyrirtækin séu að leita eftir fólki. Þarna verða boðnir starfsmenn með þjálfunarstyrk fyrir fyrirtæki í allt að sex mánuði. Að sögn Kristjáns sótti fjöldi hæfra umsækjenda um þessi tvö stöðugildi sem í boði voru og úr vöndu að ráða að velja einstaklinga í starfið.