Flughlað stækkað á Keflavíkurflugvelli
Steypuvinna hófst í veðurblíðunni í gær við stækkun flughlaðsins við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli sem er liður í að mæta aukinni flugumferð. Stækkunin nemur alls rúmlega 17.500 fermetrum, þar af eru liðlega 14.000 fm steinsteyptir en 3.500 fm lagðir malbiki.
Alls fara um 4.500 rúmmetrar af steypu í verkið eða álíka mikið og í 40 einbýlishús. Framkvæmdirnar eru unnar af Íslenskum aðalverktökum og verklok áætluð um miðjan október. Kostnaður við framkvæmdirnar nú er um 422 milljónir króna en lokið var við jarðvegsskipti og annan undirbúning verksins fyrir nokkrum árum.