Flughávaði helsta áhyggjuefnið á nýju byggingarsvæði við Bolafót
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að senda Skipulagsstofnun til staðfestingar breytingu á aðalskipulagi sem felur í sér að miðsvæði M11, svokallaður Bolafótur, stækki um 1,3 hektara inn á opið svæði OP2 við Njarðvíkurskóga.
Helsta ástæða breytingarinnar er mikil eftirspurn eftir lóðum fyrir íbúðarbyggð. Svæðið telst hentugt vegna nálægðar við leikskóla, opin svæði til útivistar og göngustígakerfi. Gert er ráð fyrir byggingum á þremur til fimm hæðum þar sem atvinnustarfsemi verður leyfð á neðri hæðum en íbúðir á efri hæðum.
Í umsögnum sem bárust á kynningartíma komu fram áhyggjur frá Isavia, Skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar og Landhelgisgæslu Íslands. Bent var á að svæðið liggi í beinni flugstefnu flugbrautar 10/28 og því verði að gera ráð fyrir miklum flughávaða. Landhelgisgæslan benti sérstaklega á að herflug valdi enn meiri hávaða en oft er gert ráð fyrir í útreikningum, auk þess sem klettabelti við svæðið geti aukið á hljóðendurkast.
Í skilmálum aðalskipulags er tekið fram að gera þurfi sérstakar kröfur um hljóðvist og hljóðeinangrun við gerð deiliskipulags fyrir svæðið. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja gerði ekki athugasemdir við breytinguna en minnti á að á svæðinu væri starfsemi fyrirtækis sem nágrönnum hefði þótt til ama og að unnið væri að lausn á því máli.
Í skilmálunum er lögð áhersla á að atvinnustarfsemi á svæðinu og íbúðarbyggð geti farið saman, en jafnframt að setja megi frekari kvaðir um takmarkanir á starfsemi í deiliskipulagi.