Flugeldasalan gekk vel hjá Keflavík
Opið á Þrettándanum og 20% afsláttur. „Flugeldasalan er mikilvæg fjáröflun hjá okkur.“
„Flugeldasalan gekk vel, betur en í fyrra og skiptir okkur verulegu máli í rekstri knattspyrnudeildarinnar. Það má ekki gleyma því að við erum að vinna í forvörn og æskulýðsstarfi án styrkja frá hinu opinbera,“ segir Ólafur Bjarnason í Knattspyrnudeild Keflavíkur.
Opið er í gamla K-húsinu við Hringbraut kl. 14-17 á Þrettándanum þar sem boðnir verða flugeldar til sölu með 20% afslætti. Ólafur segir að staðsetningin á flugeldasölunni hafi eflaust hjálpað eitthvað en líka hitt að fólk í íþróttahreyfingunni gerir sér grein fyrir því að það þarf að nota flest tækifæri til fjáröflunar fyrir íþróttastarfið. Knattspyrnan í Keflavík er langt stærsta einstaka deildin á Suðurnesjum og því skiptir máli hvernig svona fjáröflun eins og flugeldasalan gengur. „Við erum öll í þessu í sjálfboðastarfi og höfum gaman af,“ sagði Ólafur.