Flugeldar sprungu við eldamennsku
Það óhapp varð í Njarðvík á gamlársdag að flugeldar sprungu í eldhúsi á heimili einu. Húsráðandi var að elda áramótasteikina og geymdi flugelda, sem hann hugðist kveðja gamla árið með, við hlið eldavélarinnar.
Við hitann frá henni sprungu flugeldarnir og við það kom upp minni háttar eldur. Auk lögreglunnar á Suðurnesjum kom slökkvilið á vettvang en þá hafði húsráðandi slökkt eldinn. Hann slapp ómeiddur, en var að vonum brugðið eftir atvikið. Ekki reyndist þörf á að reykræsta húsnæðið.