Flugáhöfnin fann fyrir ógleði og svima - önnur flugvél á leiðinni
„Það voru allir rólegir um borð en áhöfnin og nokkrir farþegar fundu mest fyrir einhverjum einkennum eins og svima og ógleði,“ sagði Fróði Jónsson, aðstoðarslökkvistjóri Slökkviliðs Keflavíkurflugvallar í samtali við Víkurfréttir á vettvangi um kl.16.
Fróði og hans menn úr slökkviliðinu fóru um borð og hjálpuðu farþegum út úr flugvélinni. Þeir fóru inn í Leifsstöð og fengu aðhlynningu og aðstoð frá læknum sem þess þurftu.
Fróði sagði ekki ljóst ennþá hver orsökin gæti verið. Þó er líklegt að rekja megi þetta til þess að að einhverjar eiturgufur hafi komið frá kössum í farangursrými.
„Þetta voru gámar sem innihalda hættuleg efni og það er mögulegt að gufur frá þeim hafi lekið inn í farangursrýmið þegar flugmaðurinn varð að setja á handvirkan búnað þegar þrýstingur lækkaði skyndilega í farþegarýminu.
Við ætlum að klára að ganga úr skugga um innihaldið í kössunum og reyna að fá endanlega botn í málið,“ sagði Fróði.
Ný flugvél frá American Airlines er á leiðinni til Íslands til að ná í farþegana og hugsanlega aðra áhöfn til að fljúga þessari vél til Bandaríkjanna því það var ljóst að áhöfnin sem kom með hana gerir það ekki.
Videoviðtöl eru væntanleg hér á vf.is. Fleiri myndir eru komnar í ljósmyndasafn vf.is. Smellið hér til að sjá ferskar fréttirmyndir af vettvangi.
VF-myndir/pket.
Fróði Jónsson, aðstoðarslökkvistjóri á vettvangi. Að neðan má sjá fleiri myndir frá Keflavíkurflugvelli í dag.
--