Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Flugáætlanir raskast vegna eldgoss
Sunnudagur 21. mars 2010 kl. 12:38

Flugáætlanir raskast vegna eldgoss

Öllu flugi til landsins var frestað í morgun vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Áætlunarvélum Icelandair frá Seattle og Orlando í Bandaríkjunum sem lenda áttu á Keflavíkurflugvelli í morgun var beint til Boston. Um 500 manns bíða þar eftir því að komast hingað til lands. Lagt verður af stað til Íslands, klukkan þrjú að íslenskum tíma og er koma áætluð hálf átta í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Öllu flugi til Keflavíkur var frestað vegna eldgossins, vegna hættu á því að gosefni færi í hreyfla vélanna. Gosmökkurinn liggur í norðvestur.


Sex flugvélar Icelandair áttu að fara frá Keflavíkurflugvelli til Evrópuborga í morgun, þ.e. til Kaupmannahafnar, Osló, Stokkhólms, London, Amsterdam og Frankfurt. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair eru farþegar í þessum flugum samtals um 800. Brottför þessara fluga var frestað til klukkan ellefu, en flugið til Osló hefur verið fellt niður og reynt að koma farþegum þangað um aðra áfangastaði.


Mikil seinkun verður á flugi Icelandair síðar í dag og óvíst hvenær flug Icelandair verður komið á áætlun á ný. Í tilkynningu frá Icelandair kemur jafnframt fram að ljóst sé að ekki náist að komast á áætlun á ný áður en áhrifa frá boðuðu verkfalli flugvirkja fer að gæta. Þeir hafa boðað verkfall klukkan eitt í nótt.


Hjá Iceland Express var aðeins einu flugi til Lundúna frestað í morgun. Sú flugvél leggur af stað klukkan hálfellefu. Töfin veldur því að einu flugi seinkar eftir hádegi.


Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson