Flúðu út á götu undan slökkviduftskýi
Gestur á skemmtistaðnum Paddy's í Reykjanesbæ tæmdi úr sex kílóa slökkvitæki yfir staðinn og gesti þar aðfararnótt sunnudagsins síðastliðins.
Lögreglan á Suðurnesjum var í eftirlitsferð þegar gestir sáust streyma út af staðnum og út á götu.
Talsverðan reyk lagði frá skemmtistaðnum. Þegar lögregla kom á vettvang var viðvörunarkerfi staðarins í gangi og hann undirlagður af slökkvidufti.
Talið er að einhverjar skemmdir hafi orðið á skemmtistaðnum svo og tækjabúnaði í eigu hljómsveitarinnar sem spilaði á Paddy's um kvöldið, en ekki er ljóst hversu miklar þær voru. Lögregla hefur rætt við fólk sem var statt á Paddy's og rannsakar málið.