Flottur föstudagur á Ljósanótt
Ljúf stemning var á meðal gesta Ljósanætur í gærkvöldi. Auk blíðskaparveðurs átti án efa kraftmikil kjötsúpan frá Skólamat, sem yljaði á milli þrjú og fjögurþúsund manns, sinn þátt í því að fylla gesti af notalegheitum. Margir röltu Hafnargötuna í rólegheitum og gengu á milli þeirra tuga myndlistar- og handverkssýninga sem þar eru opnar. Aðrir dilluðu sér á Bryggjuballi við smábátahöfnina og tóku undir með Védísi Hervöru, Sigríði Thorlacius, Valgeiri Guðjóns og KK og Magga Eiríks sem léku við hvern sinn fingur.
Framundan er viðburðarríkur dagur í Reykjanesbæ. Hin einstaka Árgangaganga á Hafnargötu hefst kl. 13:30 þar sem mannkynssaga nútímans tekur á sig mynd . Hún er orðin svo órjúfanlegur þáttur í Ljósanæturhátíðinni að fólk mun ekki láta dálítið logn á hreyfingu slá sig út af laginu heldur klæðir sig upp í samræmi við aðstæður og mætir galvaskt til leiks að hitta skólafélaga og aðra jafnaldra. Að henni lokinni tekur við fjölbreytt dagskrá á hátíðarsvæði, sýningar, uppákomur, tónlistarviðburðir, Skessan býður í lummur, fornbíla- og bifhjólaakstur, leiktæki, veitingar og margt fleira. Í kvöld verða stórtónleikar á útisviði þar sem fram koma Dr Gunni og vinir hans, Ásgeir Trausti, Fyrsti kossinn – Hljómar í 50 ár, hljómsveitin Valdimar og hljómsveitin Ojba rasta.
Gleðin nær hámarki þegar HS Orka býður gestum upp á björtustu flugeldasýningu landsins og þegar síðasti flugeldurinn hefur brunnið upp eru ljósin kveikt á Berginu sem lýsa upp tilveruna á meðan skammdegið gengur í garð.
KK og Magnús Eiríksson á sviðinu við smábátahöfnina í gærkvöldi.