Flotbúningar og sími björguðu lífi þeirra
„Við vorum að leggja þarna út línu með mótorinn í hægagangi þegar alda kom yfir bátinn að aftan. Hólfið aftast á báturinn fylltist strax og síðan báturinn þannig að hann sporðreistist og sökk. Það var ekki möguleiki fyrir okkar að komast fram í bátinn þannig að við fórum í sjóinn.“
Þannig lýsir Trausti Björgvinsson atburðarrásinni þegar hann féll í sjóinn um helgina ásamt félaga sínum, Daníel Karlssyni. Þeir voru þá staddir í smábát um 800 metra undan Vogastapa. Þeim félögum er þakklæti efst í huga til þeirra útkallsaðila sem komu að björgun þeirra.
„Einungis stefni bátsins stóð upp úr sjónum. Við reyndum að ná í belg sem flaut hjá okkur til að binda í stefni bátsins en hann hefði getað verið stórhættulegur sæfarendum ella hefði hann farið að reka. Bátinn rak hins vegar hratt frá okkur því straumurinn þarna er svo mikill. Við áttuðum okkur betur á því þegar við ætluðum að svamla að landi. Eftir einhverjar mínútur gerðum við okkur ljóst að við færðumst ekkert úr stað, straumurinn var svo sterkur. Þá renndi ég niður gallanum, náði símanum og hringdi í 112. Þá vorum við búnir að vera um það bil 10 mínútur í sjónum,“ segir Trausti. Hann segir flotbúningana sannarlega hafa sannað gildi sitt.
Frá því þeir hringdu eftir hjálpinni liðu ekki nema um 15 mínútur uns þeir voru komnir um borð í björgunarbát Björgunarsveitarinnar Suðurnes sem kom frá smábátahöfninni í Grófinni í Keflavík. Ennig var Sómabátur kominn á staðinn á vegum lögreglunnar. Þá dreif að björgunarsveitarlið frá Grindavík og Sandgerði auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar sveimaði yfir staðnum.
„Þessi viðbrögð eru með ólíkindum góð og sýna enn einu sinni hver starfsemi björgunarsveitanna er mikilvæg. Þessar 15 mínútur eru auðvitað lengi að líða í þessum aðstæðum og maður finnur hvað þetta tekur í. Staumurinn rífur í og maður var einhvern veginn lurkum laminn og þreyttur eftir þetta,“ sagði Trausti.
Athugasemd: Vegna handvammar blaðamanns birtust röng nöfn með þessari frétt í Víkurfréttum í morgun. Biðjumst við velvirðingar á þeim mistökum. Mennirnir heita Trausti Björgvinsson og Daníel Karlsson.
---
Efri mynd: Trausta og Daníel er þakklæti efst í huga eftir björgunina.
Frá vettvangi björgunaraðgerða á laugardaginn