Flokkun úrgangs hefst á heimilum Reykjanesbæjar 2018

-Tekið verður upp „tveggja tunnu kerfi“

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í gærmorgun að Kalka, Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf., fái heimild til að hefja flokkun úrgangs á næsta ári við heimili í Reykjanesbæ, en þann 4. maí sl. sendi Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri SS, bréf til bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, fyrir hönd stjórnarinnar, með tillögu um flokkun úrgangs við heimili á Suðurnesjum.

Tekið verður upp svokallað „tveggja tunnu kerfi“ þar sem grá tunna verður fyrir almennan úrgang, sem ekki á samleið með endurvinnsluefni, og græn tunna, sem samanstæði af til dæmis dagblöðum, pappa, fernum, plastumbúðum og minniháttar málmi. Gert er ráð fyrir að með þessari breytingu, fari um 1500 til 1700 tonn til endurvinnslu á ári. Það eru um 30 prósent alls heimilisúrgangs á Suðurnesjum.

Fundargerð bæjarráðs Reykjanesbæjar frá því í gærmorgun fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 6. júní næstkomandi.