Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Flóðbylgja hælisleitenda sem ætluðu til Kanada
Þriðjudagur 16. september 2008 kl. 14:56

Flóðbylgja hælisleitenda sem ætluðu til Kanada

Í Reykjanesbæ eru menn settir bak við lás og slá eftir að hafa framvísað vegabréfi á Keflavíkurflugvelli sem er ýmist falsað eða með mynd sem líkist viðkomandi.
Nú er svo komið og ekki í fyrsta skiptið að allir sex fangaklefar lögreglunnar á Suðurnesjum er yfirfullir af útlendingum sem voru á leið vestur til Kanada með fölsuð vegabréf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að sögn Öldu Jóhannsdóttur,fulltrúa lögreglunnar á Suðurnesjum, er ekki óalgengt „að flóttamenn séu með fölsuð vegabréf, en þá leggjast allir á eitt að sanna það hver viðkomandi er og hann reynir ekki að fela sannleikann.“
Annað mál gegnir um þá sem eru að fara t.d. til Kanada og eru gripnir í flugstöðinni án löglegra skilríkja, þeir vilja fela bakgrunn sinn og hjálpa ekki til við að finna lausn á sínum málum en sækja samt um pólitískt hæli.

Algjör flóðbylgja hefur skollið á lögregluna á Suðurnesjum af útlendingum sem ferðast með ólögleg vegabréf. „Öflugt vegabréfaeftirlit tollstjórans og lögreglunnar hefur orðið til þess valdandi að ná þeim sem ferðast á milli landa undir fölsku flaggi.“ segir Alda. „Ásetningur fólksins er ekki að setjast að hér á landi eða sækja um hæli heldur er stefnan tekin vestur um haf eða til Kanada, sumir hinsvegar sækja um hæli á Íslandi frekar en að fara til baka, þaðan sem þeir komu.“
Flugleiðin frá Evrópu til Kanada sem millilendir á Ísland hefur skilað af sér mörgum hælisleitendum og verkefnin hrannast upp hjá lögreglunni.

Komið hefur fyrir að menn sæki um hæli en dragi síðan umsókn sína til baka þegar lögreglan hefur komist að sannleikanum. Flestir hælisleitendur sem sækja um hæli „á eigin vegum” hverfa af landi brott áður en umsókn þeirra er afgreidd en einnig er mörgum vísað úr landi á grundvelli svonefndrar Dyflinnar-reglugerðar. Í undantekningatilfellum er hælisleitendum, sem fengið hafa synjun, veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Alda segir að ástandið sé ekki gott eins og staðan er í dag. „Allar fangageymslur eru fullar og búið að vera mikið álag. Hvert og eitt svona mál kallar á skjót viðbrögð“ og var hún t.d. á leið í dómsal með tvo skjólstæðinga sína. Einn mannanna var búin að sækja um hæli en dró það til baka þegar upp komst um hann og rétta vegabréfið fannst undir rúmdýnu. Á hann fellur dómur fyrir að villa á sér heimildir og þrátt fyrir að draga hælisumsókn sína til baka og ósk um að yfirgefa landið mun dómurinn fylgja honum. “ „Fyrir utan þann gríðarlega kostnað sem fylgir þessum málum þá er töluvert álag fyrir bæjarbúa að vita ekki hvaðan fólk kemur sem sækir um pólitískt hæli.“
Ein fjölskylda sem sótt hefur um hæli en hafði engin vegabréf til að framvísa hefur í raun dvalarleyfi á Grikkland en ekki á Íslandi.  Áður en fólkið er sent til baka þarf að fullvissa sig um að það verði tekið við þeim í öðru landi,“ segir Alda Jóhannsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans á Suðurnesjum.