Fljúga milli Keflavíkur og Akureyrar
Flugfélag Íslands hefur beint innanlandsflug milli Keflavíkur og Akureyrar á næsta ári í tengslum við millilandaflug í Keflavík. Flogið verður allan ársins hring milli Keflavíkur og Akureyrar, en auk þess hagræðis sem þetta hefur í för með sér fyrir íbúa á Norðurlandi sem vilja nýta sér millilandaflug, er gert ráð fyrir að þetta verði til þess að fjölga enn frekar ferðamönnum á landsbyggðinni. Fyrsta flug milli Keflavíkur og Akureyrar verður þann 24. febrúar 2017, segir í tilkynningu frá Flugfélagi Íslands.
Flogið verður sex sinnum í viku milli Akureyrar og Keflavíkur yfir vetrartímann og þrisvar sinnum í viku yfir sumartímann. Í tilkynningunni kemur fram að á þessu stigi verður þetta flug eingöngu í boði fyrir farþega sem eru á leið í eða úr millilandaflugi í Keflavík og geta farþegar sem nýta sér þessa þjónustu ferðast alla leið frá Akureyri til endanlegs áfangastaðar í Evrópu eða Norður Ameríku.