Flestir í Stapaskóla fá skólamat en fæstir í Háaleitisskóla
Alls eru 2.157 nemendur í áskrift að skólamáltíðum af 2.466 nemendum í grunnskólum Reykjanesbæjar sem gerir 87,47% hlutfall. Nánast sama hlutfall var á síðasta skólaári þegar 2.133 nemendur af 2.437 voru í áskrift, eða 87,53%.
Af einstökum skólum í Reykjanesbæ þá eru flestir áskrifendur að skólamáltíðum í Stapaskóla, eða 93,94% nemenda. Fæstir eru áskrifendur í Háaleitisskóla, eða 81,85% nemenda skólans.
Í gögnum frá grunnskólafulltrúa segir að tólf áskriftum hefur þurft að loka það sem af er skólaári vegna ógreiddra reikninga. Fjórar af þeim lokunum tengjast niðurfellingu fæðisgjalda vegna systkina sem hefur það í för með sér að loka þarf þeim áskriftum um næstu mánaðarmót en Reykjanesbær hefur greitt fyrir þær áskriftir í október og eru þær því opnar út mánuðinn. Sótt hefur verið um styrk fyrir greiðslu skólamáltíða í Hróa Hött barnavinafélag fyrir fjórtán nemendur.
Fræðsluráð Reykjanesbæjar hefur óskað eftir að fá upplýsingar varðandi skólamáltíðir reglulega inn á fundi ráðsins.