Flensutilfellum að fjölga mikið
Virkni inflúensunnar hefur aukist mikið hér á landi á undanförnum tveimur vikum samkvæmt klínískum inflúensugreiningum veirudeildar Landspítala. Þetta kemur fram á vef Embætts landlæknis.
Sennilegt þykir að flensan hafi ekki enn náð hámarki og því gert ráð fyrir auknum veikindum á næstu vikum.
Eftirfarandi er leiðbeiningar sem læknar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hafa tekið saman um varnir gegn inflúensusmiti:
Inflúensa lýsir sér oftast með háum hita og beinverkjum, oft með höfuðverk og þurrum hósta. Sumir fá einnig sára hálsbólgu og stundum eru til staðar einkenni frá meltingarfærum. Verstu einkennin ganga yfir á 2 til 3 sólarhringum og undantekningalítið jafnar fólk sig án nokkurra vandkvæða. Ekki er til lækning við inflúensu en almenn verkjalyf svo sem parasetamól og bólgueyðandi lyf svo sem íbúfen geta mildað einkenni mikið. Til eru veirulyf sem draga úr einkennum svo sem tamiflu og relenza, sérstaklega ef þau eru gefin strax en flestir jafna sig fljótt og vel án nokkurra inngripa og eru að fullu frískir á ca. viku.
Inflúensa er gríðarlega smitandi og því er áríðandi að fólk takmarki eins og unnt er samskipti við annað fólk meðan á veikindum stendur og gæti sérstaklega að handþvotti og öðru hreinlæti. Almennt er ráðlegt að halda sig heima við í að minnsta kosti viku í kringum einkenni, bæði til að ná að jafna sig og til að draga úr útbreiðslu flensunnar.
Aldrei er of seint fyrir fríska einstaklinga að bólusetja sig við inflúensu, bólusetningin minnkar líkur á smiti um ca. 60% og þeir sem eru bólusettir en veikjast fá yfirleitt mun vægari einkenni. Ekki er hægt að fá flensu gegnum bólusetningu.
Til að draga úr álagi á vaktþjónustu HSS og draga úr útbreiðslu smits biðjum við fólk að íhuga fyrrgreind atriði áður en leitað er til heilsugæslunnar. Símaþjónusta HSS (422-0500) er ávallt boðin og búin að veita ráðleggingar og aðstoða fólk án þess að það komi á staðinn.
Fyrrnefnd fjölgun flensutilfella helst í hendur við þróun í nágrannalöndunum og á meginlandi Evrópu þar sem hafa komið upp alvarleg tilfelli, aðallega í hópum fólks sem er veikt fyrir, en einnig hjá ungu og hraustu fólki.
Hér á landi hafa fjórir verið lagðir inn á gjörgæsludeild LSH með inflúensu, þar af einn alvarlega veikur, en fylgst verður náið með framvindu mála bæði hér heima og erlendis.
Samkvæmt tilkynningu frá Sóttvarnarlækni er ráðlagt að nota flensulyfin oseltamivir (Tamiflu®) og zanamivir (Relenza®), en taka skal fram að ákvörðun um meðferð er ávallt tekin af meðhöndlandi lækni.
Á vef Landlæknisembættisins segir að gagnsemi lyfjanna sé ótvíræð ef meðferð hefst innan 48 klukkustunda eftir að einkenna verður vart og niðurstöður benda til að draga megi úr dánartíðni inflúensu þótt meðferð hefjist ekki fyrr en 4 til 5 dögum eftir upphaf einkenna.