Fleiri páskagestir í Bláa lónið
Veðurblíðan lék við gesti Bláa Lónsins um páskahelgina. Fjöldi baðgesta var 7390 og er það um 3 prósent aukning m.v. páskahelgina á sl. ári. Systurnar í hinni vinsælu hljómsveit Sister Sledge voru á meðal gesta og nutu þær þess að slaka á í lóninu fyrir tónleika helgarinnar.
Góð þátttaka var einnig í viðburði Bláa Lónsins um páskahelgina, hátt í 200 manns tóku þátt í göngunni sem var samstarfsverkefni Bláa Lónsins og Grindavíkurbæjar. Vatnsleikfimi sem fram fór í lóninu undir leiðsögn Rúnars Sigríkssonar féll einnig í góðan jarðveg meðal gesta.
Mynd: Skvísurnar í Sister Sledge í Bláa lóninu um páskana.