Fleiri njóta fjárhagsaðstoðar
357 aðilar nutu fjárhagsaðstoðar félagsþjónustu á Suðurnesjum árið 2008 samanborið við 210 árið áður. Í þessum hópi voru 214 nýir viðtakendur.
Stærstu hóparnir sem nutu fjárhagsaðstoðar á Suðurnesjum síðasta ári eru einstæðar mæður með börn en þær voru 132 talsins. Þar á eftir komu einstæðir barnlausir karlar en þeir voru 131. Stærsti hlutinn er á aldrinum 25 - 39 ára. Þettta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands yfir félagsþjónustu sveitarfélaganna. Meðalfjárhæð fjárhagsaðstoðar á mánuði var 55.735 krónur.
Árið 2008 fengu 5.029 heimili í landinu fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fjölgað um 749 (17,5%) frá árinu áður. Árið 2003 þáðu 6.312 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga en til ársins 2007 fækkaði þeim jafnt og þétt eða sem nam 32% á öllu tímabilinu. Árið 2008 var meðalgreiðsla fjárhagsaðstoðar 86.490 krónur á mánuði.