Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Fleiri aldraðir óska eftir mataraðstoð
    Forsetahjónin heimsóttu Fjölskylduhjálpina i Reykjanesbæ í dag þegar jólaúthlutun fór fram.
  • Fleiri aldraðir óska eftir mataraðstoð
    Húsnæði Fjölskylduhjálpar Íslands í Reykjanesbæ.
Þriðjudagur 22. desember 2015 kl. 16:53

Fleiri aldraðir óska eftir mataraðstoð

„Sorglegt að sjá fólk á níræðisaldri í röð“

 „Það er virkilega sorglegt að sjá fólk á níræðisaldri standa hér í röð. Mér finnst ástandið til háborinnar skammar,“ segir Anna Valdís Jónsdóttir, verkefnisstjóri hjá Fjölskylduhjálpinni í Reykjanesbæ. Hún segir um 350 fjölskyldur leita til samtakanna í hverjum mánuði eftir matarúthlutun. Úthlutanir á vegum Fjölskylduhjálpar eru alltaf annan og fjórða fimmtudag hvers mánaðar. Stærsti hluti þeirra sem óska eftir mataraðstoð eru eldri borgarar og öryrkjar en í hópnum eru líka einstæðir foreldrar. „Lengi vel voru um 120 fjölskyldur til komu reglulega til okkar en þeim hefur að undanförnu fjölgað í 350. Ástandið er víða mjög bágborið og það hefur aukist mikið að eldri borgarar leiti til okkar,“ segir hún.

Nú um áramót hækka tekjur almannatrygginga til öryrkja og eldri borgara um 8,9 prósent. Anna segir hækkunina hafa þurft að koma fyrr, vera hærri og að hún eigi að vera afturvirk. „Eldri borgarar, öryrkjar og fólkið sem fær lægstu launin þurfa að fá mannsæmandi tekjur til að geta lifað af. Margir hafa misst allt sitt og eru að leigja. Þá er ekkert afgangs og sumt fólk hefur jafnvel ekki efni á nauðsynlegum lyfjum.“ Anna tekur dæmi um karlmann sem vinnur láglaunastarf. „Hann á 20.000 krónur eftir þegar hann er búinn að greiða húsaleigu og meðlag. Hann getur hvorki veitt sér né börnum sínum neitt þegar þau koma til hans um aðra hverja helgi.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nú í ár er Fjölskylduhjálpin í Reykjanesbæ með jólamarkað fjórða árið í röð. Allt andvirði sölunnar fer í matarsjóð samtakanna. Anna segir bagalegt að sumt af því fólki sem þarf á aðstoð að halda viti ekki af Fjölskylduhjálpinni. „Til dæmis komu tveir karlar í fyrsta sinn í dag. Þeir eru komnir hátt á níræðisaldur og höfðu ekki heyrt af okkur fyrr. Svo er einnig fólk sem kann ekki við að koma en þarf á aðstoð að halda.“