Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fleiri, fjölþættari og tímafrekari mál
Frá Reykjanesbæ.
Miðvikudagur 27. ágúst 2014 kl. 16:46

Fleiri, fjölþættari og tímafrekari mál

Árið 2013 þungt hjá Barnavernd Reykjanesbæjar.

 

Alls voru mál 25 barna lögð fyrir Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar á árinu þar af mál 19 stelpna og sex drengja. Barnaverndarnefnd þurfti að grípa til neyðarráðstöfunar skv. 31. gr. bvl. vegna eins barns þar sem foreldrar samþykktu ekki vistun utan heimilis og barnið var talið í hættu hjá foreldrum sínum. Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu Fjölskyldu- og félagssviðs Reykjanesbæjar.
 
Þá úrskurðaði barnaverndarnefndin á árinu um vistun sex barna utan heimilis skv. 27. gr. bvl. en um var að ræða þrjár fjölskyldur. Barnaverndarnefnd gerði einnig kröfu um áframhaldandi vistun utan heimilis vegna ofangreindra barna skv. 28. gr. bvl. og vann málið hjá tveim fjölskyldum. Í málum tveggja barna úrskurðaði barnaverndarnefnd um að gera kröfu um forsjársviptingu fyrir dómstólum skv. 29. gr. bvl en um var að ræða tvær fjölskyldur. 
 
Árið 2013 var frekar þungt hjá Barnavernd Reykjanesbæjar meðal annars vegna fjölda mála og vandi barna og fjölskyldu þeirra voru fjölþættari sem kallaði á meiri vinnu en oft áður. Auk þess voru mál sem voru tímafrek vegna skorts á samþættri þjónustu milli ríkis og sveitarfélaga sem þurfti að vinna með á árinu. Á árinu fóru nokkur mál fyrir dómstóla þar sem gerð var krafa annað hvort um vistun barns utan heimilis eða forsjársvipting. Þessi mál eru ávallt þung í vinnslu og krefjast mikillar vinnu hjá starfsmönnum barnaverndar þar sem aðstæður barnanna eru slæmar og flóknar ásamt því að foreldrar eru ósamvinnuþýðir og ósáttir við aðgerðir barnaverndarnefnda.
 
Á árinu 2013 voru 20 börn vistuð í neyðarvistun, hjá ættingjum eða á öðrum viðeigandi stöðum tímabundið. Í málum tveggja barna afsöluðu foreldrar sér forsjá í samvinnu við barnaverndarnefndir. Í málum ellefu barna, þar af níu stúlkna og tveggja drengja, óskuðu starfsmenn barnaverndar eftir lögreglurannsókn á meintu refsiverðu broti gegn barni. Á árinu 2012 voru sex slík mál.
 
Í lok árs 2013 var málum 151 barns lokið en mál 217 barna enn í vinnslu. Málum 21 barns var vísað til annarra barnaverndarnefnda.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024