FLE opin á jóladag fyrir eina ferð
Hingað til hefur millilandaflug ekki verið í boði á jóladag hér á landi en á því verður nú breyting. Það verður þó aðeins ein ferð í boði en farþegarnir eiga engu að síður að geta verslað í fríhöfn og fengið sér í svanginn fyrir ferðalagið. Túristi.is greinir frá þessu.
Einu sinni á ári liggja allar flugsamgöngur til og frá Íslandi niðri og það er þann 25. desember ár hvert. Flugstöð Leifs Eiríkssonar verður hins vegar opin á jóladag í ár. Það er þó aðeins ein vél á dagskrá dagsins en sú er á vegum easyJet. Vélin kemur frá Genf í Sviss og lendir í Keflavík um kaffileytið og fer á loft á ný tíu mínútur í fimm.
Hafa ekki sóst eftir jólaferðum
Þrátt fyrir að fáir farþegar muni fara um flugstöðina á jóladag þarf engu að síður að ræsa út starfsfólk flugvallarins og samkvæmt upplýsingum frá Isavia þá er einnig ætlast til að verslanir séu opnar við allar brottfarir. Það er því ljóst að margir starfsmenn Keflavíkurflugvallar þurfa að mæta til vinnu seinnipartinn á jóladag. Í svari frá Isavia segir að þó fyrirtækinu sé umhugað um betri nýtingu mannvirkja þá hafi ekki verið leitast við að auka flug á hátíðardögum yfir jólin.
Rúta Airport Express mun keyra til og frá Keflavíkurflugvelli í tenglum við þessa einu ferð easyJet á jóladag samkvæmt upplýsingum frá Grayline.
Ódýrt að fljúga á jóladag
Þeir sem vilja nýta sér þá nýjung að geta flogið til útlanda á jóladag geta fengið farmiða á rúmar 10 þúsund krónur á heimasíðu easyJet. Við verðið bætist hins vegar farangursgjald.