Flatarmál eykst sem nemur níu knattspyrnuvöllum á hverjum sólarhring
Nýjar mælingar voru gerðar á eldstöðinni í Fagradalsfjalli sl. á föstudag. 11. júní, en þá flaug Garðaflug með Hasselblad myndavél Náttúrufræðistofnunar og hafa nú verið unnin ný landlíkön af Fagradalshrauni eftir myndunum.
Meðalhraunrennslið yfir tímabilið 2.-11. júní (9 dagar) er tæplega 12 m3/s sem er óbreytt rennsli frá næsta tímabili á undan (18. maí – 2. júní). Hraunrennslið hefur því haldist nánast stöðugt undanfarnar sex vikur og verið tvöfalt meira en var að meðaltali fyrstu sex vikurnar.
Hraunið mælist nú 63 millj. rúmmetrar og flatarmálið 3,23 ferkílómetrar. Flatarmálið hefur aukist töluvert frá síðutu mælingu eða um rúmlega 60.000 fermetra á dag. Það samsvarar um níu knattspyrnuvöllum á degi hverjum.
Yfirlit um hraunflæði
Eins og áður hefur komið fram má skipta gosinu í þrjú tímabil:
Fyrsta tímabilið stóð í um tvær vikur og einkenndist af fremur stöðugu en þó örlítið minnkandi hraunrennsli. Rennslið lækkaði úr 7-8 m3/s í 4-5 m3/s á tveimur vikum.
Annað tímabilið, sem einnig stóð í tvær vikur, einkenndist af opnun nýrra gosopa norðan við upphaflegu gígana. Hraunrennsli var nokkuð breytilegt, á bilinu 5-8 m3/s.
Þriðja tímabilið hefur nú staðið í átta vikur. Á þessu tímabili hefur virknin öll verið í einum og sama gígnum allt hraunið kemur úr honum. Eðlilegt er að skipta þessum átta vikum í tvennt. Fyrstu tvær vikurnar var hraunrennslið 5-8 m3/s en síðustu sex vikur hefur það legið á bilinu 11-13 m3/s.
„Gosið í Fagradalsfjalli er um margt frábrugðið þeim gosum sem við höfum orðið vitni að undanfarna áratugi. Flest gosin hafa átt upptök í kvikuhólfum undir megineldstöðvum þar sem þrýstingur í hólfinu og stærð þess virðist ráða mestu um stærð og lengd goss. Í Fagradalsfjalli virðist þessu vera nokkuð öðruvísi varið. Þar er svo að sjá að aðstreymisæðin og eiginleikar hennar ráði miklu um kvikuflæðið. Rásin sem opnaðist var tiltölulega þröng og löng (nær niður á ~17 km dýpi) og flutningsgetan takmörkuð. Aukning með tíma bendir til þess að rásin hafi víkkað heldur með tímanum, sennilega vegna rofs í veggjum hennar. Ekki er að sjá að þrýstingur í upptökum hafi minnkað að ráði og því óx flæðið þegar rásin víkkaði. Engin leið er á þessari stundu til að segja til um hve lengi gosið muni vara eða hvort hraunrennslið muni halda áfram að aukast,“ segir í samantekt Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.