Flak Guðrúnar Gísladóttur KE notað sem uppeldisstaður fyrir þorsk- og lúðuseiði?
Fyrirtækið Prepare AS hefur hug á að nýta flak Guðrúnar Gísladóttur KE sem uppeldisstað fyrir þorsk- og lúðuseiði sem sleppt verði á strandstaðnum. Kostnaðaráætlun vegna þessa verkefnis hljóðar upp á 424 milljónir ísl. króna og er kveðið á um opinberan stuðning við það í drögum að norsku fjárlögunum fyrir árið 2005.
Hugmyndin um að gera flakið að griðar- og uppeldisstað fiskseiða kom fram fyrr á þessu ári. Hún gengur út á að fjarlægja síldarfarm skipsins og umbúðir. Því næst á að bora göt á skipsskrokkinn til þess að auka gegnumstreymi sjávar og koma fyrir hlutum í og við skipsskrokkinn til þess að fjölga felustöðum fyrir fiska. Einnig á að flýta gróðurmyndun á flakinu með hjálp nýrrar tækni. Ef þetta gengur eftir verða sett út 100 þúsund þorskseiði og 30 þúsund lúðuseiði sem fóðruð verða í byrjun með fiskúrgangi frá fiskvinnslufyrirtækjum.
Fyrirtækið Europharma, sem er móðurfélag Prepare AS, þekkir vel til mála í Nappstraumen þar sem Guðrún Gísladóttir sökk því fyrir átta árum fékk fyrirtækið leyfi til þess að sökkva olíuborpallinum Brent Spar um 200 metrum frá þeim sem stað Guðrún Gísladóttir hvílir nú á. Það verkefni naut stuðnings sveitastjórnarinnar á staðnum, nokkrum umhverfisverndarfélögum og samtaka sjómanna en olíufélagið, sem átti borpallinn, hætti við þessi áform og kaus að nota pallinn frekar sem bryggju eða viðlegukant. Ef hugmyndin nú verður að veruleika eru Europharma og Prepare tilbúin til þess að setja út seiði seint næsta haust.
Þess má geta að norska ríkið hyggst verja rúmlega 22 milljörðum íslenskra króna til að færa gamla olíuborpalla í land frá Friggsvæðinu og rífa þá þar. Jim Roger Nordly, framkvæmdastjóri Europharma, segir í samtali við Lofotposten að skynsamlegra sé að sökkva borpöllunum við ströndina og nota þá sem skjól fyrir fiskseiði. Með því væri hægt að hraða uppbyggingu strandþorskstofnsins.
Fleiri fréttir á fréttavefnum Skip.is
Guðrún Gísladóttir sekkur fyrir utan Lófót fyrir um tveimur og hálfu ári. Úr myndasafni Víkurfrétta.