Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjórir Stafnes-túnfiskar á leiðinni til Japans - video
Mánudagur 22. október 2012 kl. 13:21

Fjórir Stafnes-túnfiskar á leiðinni til Japans - video

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nú er verið að búa fjóra myndarlega túnfiska í Garðinum undir langt ferðalag. Fiskarnir fjórir fara í flug í dag. Fyrsti áfangastaður er Heathrow í London en þaðan fara þeir svo til Japan þar sem túnfiskurinn verður seldur á markaði og er búist við að gott verð fáist fyrir.

Túnfiskana fjóra fékk Stafnes KE um 200 mílur suður af Reykjanesi. Stafnesið sér um að veiða íslenska túnfiskkvótann, samtals 25 tonn af túnfiski. Áður en Stafnes KE fór á túnfiskveiðar var Hollywood-stjarnan Ben Stiller með skipið á leigu og notaði það í nýjustu kvikmynd sinni The Secret life of Walter Mitty.

Þegar Víkurfréttir komu við í fiskvinnslustöð í Garðinum í morgun var verið að vikta fiskana en samtals eru þeir um 600 kg. Mikið er lagt upp úr að búa fiskana vel fyrir flutningin til Japans til að halda ferskleika hráefnisins alla leið. Ekki mega líða meira en tíu dagar frá því fiskurinn er veiddur og þar til hann er kominn á markaðinn í Japan.

Stafnesið kom til Grindavíkur í gærmorgun með aflann, fjóra fiska. Í morgun hefur svo verið unnið að því að ganga frá fiskunum í sérstakar pakkningar. Túnfiskurinn er hausskorinn og einnig er tekinn af honum sporðurinn. Hann fer svo utan í sérstökum pakkningum og kældur með ís og íklæddur sérstökum kæliumbúðum.