Fjórir skólar á Suðurnesjum fengu styrk til Forritara framtíðarinnar
Fjórir grunnskólar á Suðurnesjum fengu styrk til Forritara framtíðarinnar en tilgangur sjóðsins er að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins.
Skólar á Suðurnesjum sem fengu styrk eru Sandgerðisskóli, Holtaskóli, Háaleitisskóli og Njarðvíkurskóli í Reykjanesbæ.
Í ár styrkir sjóðurinn 30 skóla um sem nemur tæpum 12 milljónum króna að andvirði. Styrkur skiptast í tvo meginflokka, annars vegar tæpar 7,8 milljónir vegna námskeiða, námsefnisgerðar og kaupa á smærri tækjum í forritunar og tæknikennslu, og hins vegar rúmar 4,2 milljónir króna vegna tölvubúnaðar. Ljóst er að þörf skóla er mikil á þessu sviði því í ár var sótt um styrki sem í heild nema yfir 40 milljónum króna.
Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Hollvinir sjóðsins eru RB, Íslandsbanki, Landsbankinn, CCP, Icelandair, Össur, KOM ráðgjöf, Webmo design og Mennta- og menningarmála-ráðuneytið.