Fjórir menn björguðust af Unu í Garði
Að sögn stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar björguðust fjórir skipverjar Unu í Garði af sex í morgun eftir að skipið fórst norður af Skagafirði, en ekki þrír eins og áður hefur verið sagt frá. Þyrla gæslunnar, TF-LÍF, er á leið á vettvang og mun svipast um eftir mönnunum tveimur og leita að neyðarbauju frá bátnum. Fréttavefur Morgunblaðsins greinir frá.Rækjubáturinn Húni HU-62 frá Blönduósi bjargaði skipverjunum fjórum úr gúmmíbjörgunarbáti sem flugvél Flugmálastjórnar fann klukkan 6:40 í morgun. Að sögn skipstjórans Ásgeirs Blöndals er hann væntanlegur með skipverjana til Blönduóss uppúr klukkan hálf þrjú síðdegis.
Að sögn Ásgeirs hafði Landhelgisgæslan samband við hann eftir að flugvélin var búin að finna björgunarbátinn. „Það tók okkur um klukkutíma að komast á staðinn," sagði Ásgeir en mennirnir fjórir voru komnir um borð uppúr átta. Ásgeir segir að mennirnir séu ómeiddir en þeir hafi þó verið blautir og kaldir þegar þeir komu um borð. „Þeir voru fljótir að ná sér þegar þeir komu um borð," sagði hann.
TF-LÍF er væntanleg á slysstaðinn upp úr klukkan 12:30 en samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar eru engir bátar þar við leit. Orsakir þess að Una í Garði fórst eru ókunnar en Rannsóknarnefnd sjóslysa er á leið til Blönduóss til að taka skýrslu af skipverjunum fjórum.
Ágætis veður mun hafa verið á slysstaðnum í nótt en þar var 15 hnúta vindur þegar flugvél Flugmálastjórnar var á flugi á slysstað.
Skipstapinn kom í ljós er merki frá neyðarsendi barst í gegnum gervihnött klukkan 5:05 í morgun. Stundarfjórðungi seinna óskaði Landhelgisgæslan eftir því að flugvél Flugmálastjórnar, TF-FMS, yrði send til að leita að bátnum.
Flugvélin fór í loftið klukkan 6:00 og fann bátinn sem fyrr segir 40 mínútum seinna. Var hann á 66:26 gráðum norður og 19:42 gráðum vestur eða beint útaf Skagafirði. Flaug flugvélin yfir svæðinu til klukkan 8 en sneri þá til Reykjavíkur.
Una í Garði var 139 tonna stálskip, smíðað á Akureyri árið 1971.
Að sögn Ásgeirs hafði Landhelgisgæslan samband við hann eftir að flugvélin var búin að finna björgunarbátinn. „Það tók okkur um klukkutíma að komast á staðinn," sagði Ásgeir en mennirnir fjórir voru komnir um borð uppúr átta. Ásgeir segir að mennirnir séu ómeiddir en þeir hafi þó verið blautir og kaldir þegar þeir komu um borð. „Þeir voru fljótir að ná sér þegar þeir komu um borð," sagði hann.
TF-LÍF er væntanleg á slysstaðinn upp úr klukkan 12:30 en samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar eru engir bátar þar við leit. Orsakir þess að Una í Garði fórst eru ókunnar en Rannsóknarnefnd sjóslysa er á leið til Blönduóss til að taka skýrslu af skipverjunum fjórum.
Ágætis veður mun hafa verið á slysstaðnum í nótt en þar var 15 hnúta vindur þegar flugvél Flugmálastjórnar var á flugi á slysstað.
Skipstapinn kom í ljós er merki frá neyðarsendi barst í gegnum gervihnött klukkan 5:05 í morgun. Stundarfjórðungi seinna óskaði Landhelgisgæslan eftir því að flugvél Flugmálastjórnar, TF-FMS, yrði send til að leita að bátnum.
Flugvélin fór í loftið klukkan 6:00 og fann bátinn sem fyrr segir 40 mínútum seinna. Var hann á 66:26 gráðum norður og 19:42 gráðum vestur eða beint útaf Skagafirði. Flaug flugvélin yfir svæðinu til klukkan 8 en sneri þá til Reykjavíkur.
Una í Garði var 139 tonna stálskip, smíðað á Akureyri árið 1971.