Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fjórir björgunarsveitarmenn frá Reykjanesbæ til Grænlands
Miðvikudagur 12. september 2012 kl. 15:16

Fjórir björgunarsveitarmenn frá Reykjanesbæ til Grænlands

Í dag hefst við austurstönd Grænlands fjölþjóðlega leitar- og björgunaræfingin SAREX Greenland Sea 2012 sem haldin er í tengslum við samning Norður Heimskautsráðsins vegna leitar og björgunar. Í æfingunni, sem stendur til 14. september, munu þjóðirnar sem standa að Norður Heimskautsráðinu þjálfa sameiginleg viðbrögð þegar skemmtiferðaskip lendir í áföllum  á afskekktri austurströnd Grænlands. Takmark æfingarinnar er að þjálfa raunveruleg leitar- og björgunarviðbrögð Norðurskautsþjóðanna, á svæði sem fjarri er öllum björgunareiningum.

Fjórir meðlimir í Björgunarsveitinni Suðurnes taka þátt í æfingunni og flugu þeir með Herkúles flutningavél bandaríska hersins til Meistaravíkur á Grænlandi í morgun. Flugvélin flutti einnig mikið af búnaði frá björgunarsveitinni með sér út, s.s. sexhjól, tjöld, fyrstuhjálparbúnað og fleira.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Björgunarsveitin Suðurnes mun starfa með læknateymi danska hersins við greiningu á slösuðum.
Þegar æfingunni á Grænlandi lýkur munu menn og búnaður verða flutt aftur til landsins með varðskipinu Þór.

Æfingin sem er mjög umfangsmikil, fer fram norðaustarlega á Grænlandshafi, milli Daneborg og Meistaravíkur. Annarsvegar er um að ræða leitaræfingu á hafi úti og hins vegar innfjarðaræfingu þar sem sett er á svið strand skemmtiferðaskips á leið frá Svalbarða til Ella Eyju. Þegar tilkynningar hætta að berast frá skipinu hefst leit á hafsvæðinu undan austurströnd Grænlands.  Í seinni hluta æfingarinnar lendir sama skip í eldsvoða og að því kemur leki. Fer þá af stað leit og björgun, bæði í skipinu sjálfu og á svæðinu. Hlúa þarf að sjúklingum og flytja þá til Íslands og Nuuk á Grænlandi.

Við undirbúning æfingarinnar hefur Landhelgisgæslan annast samskipti við Norðurskautsþjóðirnar fyrir Íslands hönd en yfirumsjón æfingarinnar hefur verið í höndum danska sjóhersins. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar taka þátt með margvíslegum hætti: í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sem jafnframt er leitar- og björgunarstjórnstöð fyrir hafið umhverfis Ísland, varðskipinu Þór, flugvélinni Sif auk þess sem gistiaðstaða og flugskýli Landhelgisgæslunnar í Keflavík verður nýtt með ýmsum hætti fyrir flugáhafnir, „slasaða“ og aðra fulltrúa æfingarinnar. Einnig tekur Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra þátt auk Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Isavia, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og Rauða krossins. Sjúkraflutningsmenn og slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eru m.a. um borð í varðskipinu Þór en alþjóðasveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar var flutt ásamt viðeigandi búnaði með flugvél á svæðið í morgun.  Samhæfingarstöð Almannavarna verður virk meðan á björgunaraðgerðum stendur. Þær þjóðir Norður Heimskautsráðsins sem senda búnað og björgunareiningar á svæðið eru auk Íslands: Kanada, Noregur, Bandaríkin, Grænland, Færeyjar og Danmörk.