Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjörheimar fá glæsilegt húsnæði á Vallarheiði
Mánudagur 4. febrúar 2008 kl. 18:03

Fjörheimar fá glæsilegt húsnæði á Vallarheiði

Félagsmiðstöðin Fjörheimar í Reykjanesbæ mun á næstu vikum flytja starfsemi sína í húsnæði á Vallarheiði, en þar er um að ræða 1000 fermetra húsnæði sem sem hýsti áður klúbbinn Windbreaker. Nú stendur yfir vinna við að koma rafmagnslögnum upp að íslenskum stöðlum, en Hafþór Birgisson, forstöðumaður, segir á heimasíðu Fjörheima að flutt verði í húsið í eitt ár til reynslu.

Vegna breytinganna sem eru fyrirhugaðar á Stapanum, þar sem Fjörheimar hafa verið með starfsemi sína, var ljóst að breytinga var þörf. Fyrstu hugmyndirnar lutu að því að starfsemin yrði færð meira inn í grunnskólana en bæjaryfirvöld tóku vel í kröfu krakkanna að hafa áfram eina miðlæga félagsmiðstöð í bænum. Eftir nokkra skoðun var ákveðið að nýta umrætt hús sem var enda í góðu standi og hentar vel til félagsstarfs.

Í Windbraker er bíósalur, danssalur og öll aðstaða til fyrirmyndar, segir á heimasíðu Fjörheima. Þar verður einn áfangi útfrá grunnskólunum með aðsetur sem kallast hljómsveitaval. Þar geta nemendur æft á hljóðfæri og fengið einingar fyrir. Einnig kemur til greina að eldri borgarar hafi afnot af húsnæðinu tvisvar í viku. Eins er öllum grunnskólunum í bænum boðið upp á að skipuleggja uppákomur sem og að tónleikar og stærri viðburðir á vegum 88 húsins verða mögulega í Windbraker.

„Við gerum okkur grein fyrir því að húsnæðið er ekki miðsvæðis, en ætlum að mæta því með stórauknum samgöngum upp á Vallarheiði til að auðvelda unglingum að stunda félagsmiðstöðina,“ segir Hafþór. „Annan hvern föstudag verður til að mynda sér Fjörheimastrætó og útideildarbíllinn verður líka til taks þegar þess þarf.“

Með tilkomu húsnæðisins verða gífurlegar breytingar á húsnæðismálum í æskulýðs- og félagsstarfi í bæjarfélaginu og stendur til að gefa út kynningarbækling á næstunni sem dreift verður til íbúa. „Þess má líka geta að 88 húsið hefur einnig fengið byggingu 790 á Vallarheiði sem er fimm herbergja húsnæði undir hljómsveitaæfingar. Nú þegar hafa níu hljómsveitir sótt um. Í húsnæðinu er möguleiki að gera studíó. Steypan hefur gengið vonum framar og hafa þau ungmenni sem þar hafa æft sannað sig og eru til fyrirmyndar,“ segir Hafþór að lokum.
 
Loftmynd/Oddgeir Karlsson - Windbreaker sést á miðri myndinni
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024