Fréttir

Fjordvik gæti sokkið í Helguvíkurhöfn
Mánudagur 5. nóvember 2018 kl. 06:00

Fjordvik gæti sokkið í Helguvíkurhöfn

Þegar sementsflutningaskipið Fjordvik verður dregið af strandstað liggur fyrir að skipið verður ekki dregið inn í höfnina í Helguvík. Ástæðan er að menn gera ráð fyrir því að skipið geti sokkið. Sökkvi það í höfninni eða innsiglingunni myndi það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Helguvíkurhöfn sem er eldsneytisinnflutningshöfn fyrir Keflavíkurflugvöll.
 
Takist að ná skipinu af strandstað er gert ráð fyrir að skipið verði dregið til hafnar í Keflavíkurhöfn. Hins vegar liggur ekki fyrir á þessari stundu hvenær ráðist verður í þá aðgerð að draga skipið á flot. Það gætu verið einhverjir dagar í það verkefni. Fyrst þarf að ná sem mestu af olíu úr skipinu.
 
Fjordvik er nokkuð skorðað við grjótgarð Helguvíkurhafnar en veður síðustu daga hafa haldið skipinu á sama stað. Greint hefur verið frá því að vilji sé til að binda skipið fast svo það fari ekki af stað ef breytingar verða á veðri þannig að vindar blási af óhagstæðari áttum.
 
Varðskipið Þór er núna skammt undan landi við Helguvík en það verður verkefni skipsins að draga Fjordvik af strandstaðnum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024