Fjórðungur íbúa Suðurnesja starfar við ferðaþjónustu

Frá árinu 2006 hefur atvinnulífið á Suðurnesjum snúist um flug og ferðaþjónustu. Upp úr efnahagshruni hefur flugfarþegum fjölgað mikið og ferðaþjónusta á svæðinu aukist. Gríðarlegur uppgangur hefur verið á svæðinu og fólksfjölgun. Ferðaþjónusta er í dag langstærsti áhrifaþátturinn í atvinnumálum en 24% íbúa Suðurnesja starfa við ferðaþjónustu á meðan fiskveiðar og vinnsla standa undir 8% starfa. Þetta kom fram á málþingi um íbúaþróun á Suðurnesjum sem Svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja stóð fyrir í síðustu viku.
 
Sævar Kristinsson, sérfræðingur á ráðgjafarsviði KPMG, kom inn á þann möguleika í erindi sínu á þinginu að árið 2040 gætu íbúar á Suðurnesjum verið orðnir 49.000 talsins miðað við þá þróun sem nú er í gangi. Og þá staðreynd að 53% íbúa Suðurnesja verða þá innflytjendur.
 
Íbúum á Suðurnesjum hefur fjölgað um 4.712 á síðustu sex árum eða 7,8% og fjöldi erlendra ríkisborgara hefur þrefaldast. Íbúafjölgun er hlutfallslega mest á Suðurnesjum 2010 - 2017 og er hún 50% frá árinu 2015. Hröð umferð farþega um Keflavíkurflugvöll umfram áætlanir hefur fjölgað störfum á Keflavíkurflugvelli hratt og mikil uppbygging er framundan. Atvinnuleysi er því sama sem ekkert sem er mikil breyting frá því þegar atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum.
 
Þá hefur íbúaverð hækkað um 50% á Suðurnesjum frá 2016 og mikil þörf er á húsnæði til næstu ára haldi fram sem horfir. Gert er ráð fyrir að sveitarfélögin nái að anna eftirspurninni til næstu ára miðað við skipulagsáætlanir en þar sem vöxturinn er hraður mun það ekki gerast strax.

Nánar er fjallað um málþingið í Víkurfréttum í þessari viku. Blaðið má nálgast hér!