Fjórði maður á lista Pírata er hættur
Segir oddvita ráða öllu innan flokksins
Páll Árnason fjórði maður á lista Pírata í Reykjanesbæ hefur sagt skilið við flokkinn. Það gerir Páll vegna þess að honum fannst sem ekki væri farið eftir grunngildum flokksins í yfirstandandi kosningabaráttu. „Flokkurinn á að snúast um lýðræði og gegnsæi. Undanfarið hefur þetta verið þannig að oddvitinn hefur ráðið öllu upp á eigin spýtur,“ segir Páll í samtali við Víkurfréttir en hann er ósáttur við þá staðreynd að ýmis mál hafi ekki verið rædd og atkvæði greidd innan flokksins um stór mál.
Oddvitinn Trausti Björgvinsson sagði m.a. í samtali við Víkurfréttir í síðustu viku að bæjarstjóramálin hafi aðeins lauslega verið rædd innan flokksins. „Það hefur hreinlega ekki verið rætt innan okkar raða, nema lauslega. Það hefur ekki verðið tekin nein ákvörðun þó að þetta sé stór spurning hvað við viljum gera,“ sagði oddvitinn í síðasta tölublaði Víkurfrétta.
„Ég vldi að hugsanlegt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn yrði í það minnsta rætt. Oddviti vildi hins vegar notast við loðin svör og ekki ákveða afstöðu okkar með ráðningu bæjarstjóra. Oddviti var ekki fáanlegur til þess að leyfa fólki að kjósa um slík mál,“ segir Páll sem sagði sig formlega úr flokknum í gær. „Ég vil að fólk fari upplýst í kjörklefann en ég tel að við höfum ekki verið að upplýsa fólk nógu vel,“ en Páll getur ekki hugsað sér að styðja Pírata í komandi kosningum vegna þess hvernig er nú í pottinn búið. Páll var einn af stofnendum flokksins í Reykjanesbæ.