Fjórði hver kennari mætti til vinnu á Suðurnesjum
Fjórði hver kennari mætti til vinnu í grunnskólum á Suðurnesjum í morgun. Alls mættu 57 kennarar af 251 til vinnu sinnar og af þeim sem mættu er helmingur kennarar í Heiðarskóla. Í Heiðarskóla mættu 28 kennarar til vinnu sinnar af 37. Í Njarðvíkurskóla mættu 5 kennarar af 34 og í Myllubakkaskóla mættu 12 kennarar af 37. Í Holtaskóla mættu 4 kennarar af 40 og í Gerðaskóla í Garði mættu 3 kennarar af 22. Í grunnskóla Grindavíkur mættu 5 kennarar af 40. Engir kennarar mættu í Stóru Vogaskóla og í grunnskólanum í Sandgerði.
Víkurfréttir hafa í morgun rætt við starfsfólk í grunnskólum á Suðurnesjum og sögðu foreldra hafa verið mjög reiða í morgun þegar í ljós kom að lítil sem engin kennsla færi fram í öðrum skólum en Heiðarskóla. „Það er náttúrulega ekki skrýtið að foreldrar séu reiðir þegar svona uppákma á sér stað eftir 7 vikna verkfall kennara,“ sagði starfsmaður í grunnskóla á Suðurnesjum í samtali við Víkurfréttir.
Myndin: Kampakátir grunnskólakrakkar áður en ljóst var að kennarar myndu ekki mæta til starfa. VF-mynd/ Páll Ketilsson