Fjórða þolendamiðstöðin á Íslandi opnar í Reykjanesbæ
Stofnfundur Suðurhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Suðurnesjum. | Opnar seinni part sumars að Aðalgötu 60 í Reykjanesbæ.
Suðurhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Suðurnesjum, mun opna að Aðalgötu 60 í Reykjanesbæ seinni part sumars. Stofnfundur Suðurhlíðar var haldinn í Reykjanesbæ í síðustu viku, þar sem þeir aðilar sem að verkefninu koma undirrituðu stofnsamþykkt.
Haustið 2023 fór af stað undirbúningur fyrir verkefnið Öruggari Suðurnes sem er svæðisbundið samráð um varnir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á svæðinu og í nóvember skrifuðu fjórtán aðilar undir samstarfsyfirlýsingu um Öruggari Suðurnes. Þessir aðilar eru lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Sveitarfélagið Vogar, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilsugæslan Höfða, Keilir, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og Sýslumaðurinn á Suðurnesjum. Það sýnir áhugann í hópnum að þegar að þessu kom var búið að ákveða að opna miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á svæðinu og fá til rekstursins fyrsta árið styrk frá félags- og vinnumálaráðuneytinu.
Á nýju ári var stofnað undirbúningsteymi sem hefur unnið ötullega að undirbúningi opnunar þolendamiðstöðvarinnar sem ákveðið hefur verið að muni kallast Suðurhlíð og nýlega var haldinn stofnfundur þar sem fulltrúar sveitarfélaganna á svæðinu, lögreglustjórans, HSS, Kvennaráðgjafarinnar og Mannréttindaskrifstofu Íslands skrifuðu undir stofnsamþykkt. Auk þess var kjörin stjórn Suðurhlíðar en í henni eiga sæti Rut Sigurðardóttir formaður, fulltrúi lögreglustjórans á Suðurnesjum, Ingunn Björg Halldórsdóttir fulltrúi Grindavíkurbæjar, Sigurrós Antonsdóttir fulltrúi Reykjanesbæjar, Guðrún Björg Sigurðardóttir fulltrúi Suðurnesjabæjar og Voga, Margrét Steinarsdóttir fulltrúi Mannréttindaskrifstofu Íslands, Þorbjörg Inga Jónsdóttir fulltrúi Kvennaráðgjafarinnar og Alma M. Rögnvaldsdóttir fulltrúi HSS. Varamenn eru Thelma B. Guðbjörnsdóttir, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, Thelma Hrund Guðjónsdóttir, Sveinbjörn Halldórsson og Sigríður Sigmarsdóttir.
Gengið hefur verið frá því að Suðurhlíð verði til húsa á Aðalgötu 60 í Reykjanesbæ og var stofnfundurinn haldinn þar. Næsta verkefni er að ganga frá ráðningu teymisstjóra sem mun halda utan um mál þeirra sem leita til stofnunarinnar. Suðurhlíð mun opna seinni part sumars.
Suðurhlíð verður fjórða þolendamiðstöðin á Íslandi, hinar eru Bjarkarhlíð í Reykjavík, Bjarmahlíð á Akureyri og Sigurhæðir á Selfossi.
Undir stofnsamþykktir skrifuðu; Fannar Jónsson (Grindavík), Kjartan Már Kjartansson (Reykjanesbær), Magnús Stefánsson (Suðurnesjabær), Gunnar Axelsson (Vogar), Alda Hrönn Jóhannsdóttir (Lögreglustjórinn á Suðurnesjum), Margrét Steinarsdóttir (MRSÍ), Þorbjörg Inga Jónsdóttir (Kvennaráðgjöfin), Sigríður Sigmarsdóttir (HSS).