Fjölsótt þrettándagleði í íþróttahúsinu í Grindavík
Þrettándagleði Grindavíkurbæjar fór fram í gær og að þessu sinni var hún haldin í íþróttahúsinu. Nokkur hundruð manns komu saman í íþróttahúsinu en með sanni má segja að þrettándagleðin sé hátíð barna.
Álfakonungur og drottning sungu nokkur þrettándalög eins og hefð er fyrir. Nemendur frá Dansskóla Hörpu sýndu dans ársins og er ljóst að þarna er á ferðinni ungir og upprennandi dansarar. Jólasveinar komu í heimsókn og skemmtu börnum sem fullorðunum með söng. Einnig voru tilkynnt úrslit í búningakeppninni sem yngri kynslóðin tók þátt. Þar gaf að líta marga frábæra búninga. Hér má sjá úrslit í keppninni.
Að lokinni dagskrá í íþróttahúsinu gengu gestir svo fylktu liði niður í Kviku, auðlinda- og menningarhúsi Grindavíkur, þar sem kyndilberar frá unglingadeildinni Hafbjörgu voru í broddi fylkingar. Þar tók svo við glæsileg flugeldasýning í boði Grindavíkurbæjar sem sló botninn í vel heppnaða Þrettándagleði Grindavíkurbæjar.
Ungir dansarar úr Dansskóla Hörpu sýndu dans ársins með tilþrifum.
Það var enginn skortur á flottum búningum hjá grindvískum ungmennum í ár. Áralöng hefð er fyrir því í Grindavík að börn gangi hús úr húsi á Þréttándanum og snýki sælgæti eða annað góðgæti.
VF-Myndir/JJK