Fjölskylduvæn fyrirtæki verðlaunuð
Í ár mun Reykjanesbær standa fyrir vali á fjölskylduvænstu fyrirtækjum bæjarins í annað sinn og eru bæjarbúar hvattir til að senda inn tilnefningar frá starfsmönnum þar sem þeir færa rök fyrir hvernig þeirra fyrirtæki tekur tillit til fjölskyldunnar í rekstri sínum.
Verðlaunaveitingin er í samræmi við fjölskyldustefnu Reykjanesbæjar og eru veittar viðurkenningar annars vegar fyrir fyrirtæki eða stofnun rekið af Reykjanesbæ og hins vegar fyrirtæki í einkarekstri staðsett í Reykjanesbæ.
Í fyrra voru í fyrsta skipti veittar viðurkenningar til fyrirtækja í Reykjanesbæ sem reka fjölskylduvæna stefnu. Þau fyrirtæki sem hlutu viðurkenningu 2004 voru, leikskólinn Hjallatún og Íslandsbanki í Keflavík.
Viðurkenningar verða veittar í tengslum við Ljósanótt 2005.
Tilnefningar berist fyrir 19. ágúst 2005 til Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar, Kjarna, Hafnargötu 57, 230 Reykjanesbæ, merktar FJÖLSKYLDUVÆNT FYRIRTÆKI
Á neðri myndinni má sjá Unu Steinsdóttur frá Íslandsbanka taka við viðurkenningu úr hendi Árna Sigfussonar, bæjarstjóra.