Fjölskyldusetur tekur til starfa í Reykjanesbæ
– Á sér ekki hliðstæðu hér á landi
Á Ljósanótt verður nýtt Fjölskyldusetur í Reykjanesbæ formlega tekið í notkun að Skólavegi 1, í húsnæði gamla barnaskólans í Keflavík. Af því tilefni verður gestum Ljósanætur boðið að líta við, skoða húsið og kynna sér starfsemi þess. Húsið verður opið laugardaginn 6. september milli kl. 15.00 og 17.00. Sérstök barnadagskrá verður fyrir utan setrið með andlitsmálun og hinum sívinsæla Brúðubíl sem kemur í heimsókn kl. 16:00 með sýningu fyrir yngstu kynslóðina.
Fjölskyldusetur er samfélagslegt verkefni sem á sér ekki fyrirmynd í íslensku samfélagi en markmið þess er að skapa umhverfi þar sem fjölskyldur geta sótt sér fræðslu og jákvæða þekkingu, allt frá fæðingu barns og fram á unglingsár. Fjölskyldusetur er rekið af Reykjanesbæ og mun leitast við að efla samstarf við félagasamtök og stofnanir í bæjarfélaginu til að miðla þekkingu. Með Fjölskyldusetrinu er lögð áhersla á að samþætta betur mismunandi verkefni og skapa heildarsýn í málefnum fjölskyldna.
Að sögn Sigurðar Þorsteinssonar, yfirsálfræðings á fræðslusviði Reykjanesbæjar, og Maríu Gunnardóttur, forstöðumanns barnaverndar Reykjanesbæjar, ríkir mikil eftirvænting meðal aðstandenda setursins og væntingar um að með því megi betur koma til móts við mismunandi þarfir foreldra og barna í samfélaginu. Áhersla verður á almenna fræðslu, sértæk námskeið fyrir börn og foreldra, inngrip í námskeiðsformi, forvarnarfræðslu og stuðning við háskólanema sem stunda rannsóknir á sviði fjölskyldu- og fræðslumála. Sigurður og María benda á að ávallt sé mikilvægt að vera vakandi yfir þörf samfélagsins í málefnum fjölskyldna og halda áfram því góða starfi sem fram fer í Reykjanesbæ.
Boðið upp á sænskar kjötbollur
Verslunin IKEA er sérstakur styrktaraðili verkefnisins en fyrirtækið hefur það í stefnu sinni að styrkja verkefni sem hafa forvarnargildi að leiðarljósi og gera menningu og menntun barna hátt undir höfði. IKEA býður gestum og gangandi upp á sænskar kjötbollur á opnunarhátíðinni.