Fjölskylduhjálp Íslands opnar í Reykjanesbæ
Fjölskylduhjálp Íslands mun opna starfsstöð í Reykjanesbæ á næstu dögum. Samtökin hafa fengið aðstöðu í gamla Stapafellshúsinu að Hafnargötu 29 í Keflavík og er gengið inn sjávarmegin. Úthlutanir verða hjá Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ á fimmtudögum en fyrsta úthlutun verður 9. desember og síðan vikulega eftir það. Þá verður sérstök jólaúthlutun.
Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, sagði í samtali við Víkurfréttir að þörfin fyrir þjónustu samtakanna á Suðurnesjum væri mikil en fjölmargir af Suðurnesjum hafa verið að sækja í matarúthlutun til Reykjavíkur.
„Núna vantar okkur frystikistur, ísskápa og borð undir vörur,“ sagði Ásgerður Jóna og biðlar til fólks á Suðurnesjum sem sé aflögufært um þessa hluti.
Einnig vantar Fjölskylduhjálp Íslands sjálfboðaliða á Suðurnesjum, bæði karla og konur. Þeir sem vilja leggja Fjölskylduhjálpinni lið við matarúthlutun hafi samband við Ásgerði Jónu í síma 892 9603.
Undanfarnar vikur höfum við heyrt fréttir af Suðurnesjafólki sem hefur verið að leggja ýmislegt til Fjölskylduhjálpar Íslands, eins og matvöru, heimabakstur og prjónaskap, svo eitthvað sé nefnt. Þetta vildi Ásgerður Jóna þakka fyrir. Eins vildi hún þakka eigendum Hafnargötu 29 fyrir afnotin af húsnæðinu fyrir Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ, en samtökin hafa húsnæðið án endurgjalds.
Auk þess að opna starfssstöð í Reykjanesbæ sem þjónar öllum Suðurnesjum þá hafa samtökin einnig opnað á Akureyri.
Mynd: Í þessu húsnæði við Hafnargötu verður Fjölskylduhjálp Íslands með matarúthlutanir á fimmtudögum. VF-mynd: Hilmar Bragi